Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:42]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og gefa mér tækifæri til að fara yfir það hver stefna Viðreisnar í þessum málaflokki er. Á vidreisn.is hefur verið gerð ágætlega grein fyrir henni. Við viljum taka á móti fólki, hælisleitendum, með mannúðlegum hætti. Við erum nokkuð sammála um að núgildandi lagaumhverfi er bara ágætt til síns brúks. Við erum algjörlega á því að það eigi að virða allar alþjóðlegar skuldbindingar okkar og við erum algerlega á því að við eigum ekki að líta á hælisleitendur sem einhvern hóp sem verður sjálfkrafa baggi á samfélaginu. Það getur vel verið að það þurfi að kosta peningum til að útbúa hælisleitendakerfi á meðan mál fólks eru til meðferðar, en til lengri tíma litið þá er það auðvitað þannig að þetta fólk er hingað komið til að búa til verðmæti og sjá fyrir sér og sínum, rétt eins og við Íslendingar gerum á hverjum tíma. Það sem ég er að velta fyrir mér gagnvart stjórnarskránni (Forseti hringir.) er að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands benti á að það þyrfti að gera nánari úttekt á greinunum til að leiða það allt saman í ljós hverjar áskoranirnar væru þar. Það mat vantar. Það er eiginlega punkturinn minn.