Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við deilum þessari upplifun. Fyrir vikið þykir mér að mörgu leyti hryggilegt þegar hv. þingmenn meiri hlutans, og kannski einna helst hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir, hreykja sér af því að hafa tekið vel í gestabeiðnir og annað, vegna þess að samráð snýst náttúrlega ekki eingöngu um að veita öðrum tækifæri til að tala, það snýst líka um samtal, það snýst um að hlusta. Maður hefði haldið að þingmenn sem vilja vinna sitt starf af fagmennsku og virðingu við þá miklu ábyrgð sem okkur er falin myndu vilja gera það í samræmi við ábendingar sérfróðra aðila og ég tala nú ekki um sérfróðra aðila um mannréttindi.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er hvaða leiðir hann sjái til þess að bæta vinnu okkar á þessu þingi, t.d. þar sem (Forseti hringir.) er ekki er þessi sjálfkrafa stjórnskipulega úttekt sem ég hefði haldið, áður en ég settist á þing, að væri ítarlegri og faglegri. (Forseti hringir.) Hvaða leiðir sér hv. þingmaður til bóta í þessari vinnu þingsins við vinnslu lagafrumvarpa?