154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

efling náms og samræming einkunnagjafar í grunnskóla .

[15:37]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Margt hnígur að því að stytting framhaldsskólanáms á sínum tíma hafi verið illa grunduð og óvönduð í marga staði. Samtal skorti á milli skólastiga, svo sem um breyttan undirbúning nemenda í grunnskóla til að takast á við snarpara og styttra framhaldsskólanám. Þá fór lítið fyrir eftirfylgni og nauðsynlegum breytingum á umgjörð námsins og aðgerðum til að bregðast við meiri þörf fyrir aðstoð og stuðning í kjölfar aukins álags á nemendur. Hluti þeirra breytinga sem áttu að eiga sér stað vegna styttingar framhaldsskólanna var að annars stigs námsefni yrði í auknum mæli kennt í efri bekkjum grunnskóla.

Ég vil því spyrja ráðherra hvort komi til álita af hans hálfu að gera nauðsynlegar breytingar til eflingar náms í unglingadeildum grunnskólanna svo að nemendur komi til náms í framhaldsskóla með viðunandi þekkingu í helstu greinum.

Í öðru lagi: Kemur til álita af hálfu ráðherra að samræma að einhverju leyti námsefni í framhaldsskólum þó að þeir njóti áfram sérstöðu sinnar? Hvað með námsefni í grunnskólum? Telur ráðherra tilefni til að samræma frekar einkunnagjöf í grunnskólum?

Í þriðja lagi: Hverju sæta sífellt minnkandi útgjöld til framhaldsskóla þegar litið er til framlags á hvern nemanda? Skýtur það ekki skökku við í ljósi þess hagræðis sem átti að hljótast af styttingu náms á sínum tíma?