154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:12]
Horfa

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir (V):

Forseti. Það er miður að heildarsýn ríkisstjórnarinnar á þennan málaflokk byggi hvorki á sjónarmiðum frjálslyndis né mannúðar. Það er miður að sífellt harðnandi málflutningur í útlendingamálum valdi stóraukinni skautun í íslenskri samfélagsumræðu og það er miður að versnandi staða annarra jaðarsettra hópa í íslensku samfélagi, t.d. eldri borgara og öryrkja, sé sífellt notuð sem barefli gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Mannúðarsjónarmið eiga að skipta okkur verulegu máli. Ísland er vel í stakk búið til að láta mannúð ráða för við alla stefnumótun í útlendingamálum og það er brýnt að laga- og regluverk í málaflokknum sé bæði skýrt og mannúðlegt, eins og ríkisstjórnarflokkarnir sammæltumst um í upphafi þessa kjörtímabils.

Aðstæður í málaflokknum hafa breyst verulega á síðustu árum. Styrjöld geisar í Evrópu, mannúðarkrísur eru víða og fólk í hverju heimshorni sætir ofsóknum fyrir skoðanir sínar, uppruna, kyn, kynhneigð og aðra þætti. Á sama tíma hefur stjórnleysi einkennt þennan málaflokk á Íslandi. Þessu stjórnleysi hefur fylgt mikil og hættuleg skautun í allri umræðu, ekki bara um umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur um fólk af erlendum uppruna almennt. Meira að segja hafa hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjálfir lýst því yfir að það sé stjórnleysi í málaflokknum, málaflokk sem hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa borið ábyrgð á í samfellt 11 ár. Engu að síður á það að vera vegna vinnubragða stjórnarandstöðunnar sem slíkt stjórnleysi hefur ríkt.

Í skjóli stjórnleysis ríkisstjórnarinnar fær málflutningur sem áður þótti öfgakenndur að grassera. Hatursorðræða fer vaxandi. Í skýrslu fjölmiðlanefndar frá því á síðasta ári segir, með leyfi forseta, að 31,5% fólks hér á landi hafi upplifað hatursfull ummæli samanborið við 24,1% á árinu í ár. Samkvæmt því sem kemur fram í sömu skýrslu sagðist einn af hverjum fjórum sammála því að hulduöfl væru vísvitandi að grafa undan norrænum og kristnum gildum með því að beina hingað straumi flóttafólks frá Miðausturlöndum.

Íslenskt samfélag er fjölmenningarsamfélag og nýtur góðs af því. Frjálslyndi og mannúðarsjónarmið eiga að skipta okkur máli. Til þess að vinda ofan af þeirri skautun sem hefur orðið í samfélagsumræðu um fólk af erlendum uppruna þarf Alþingi að nálgast þennan málaflokk af yfirvegun sem byggir á málefnalegum grunni.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er ekki gallalaust og leyfi ég mér að vera sammála Rauða krossinum og Mannréttindaskrifstofu Íslands um að það felist mikil réttindaskerðing í því að fella brott 2. mgr. 36. gr. laganna. Þessar stofnanir hafa að geyma umtalsverða sérfræðiþekkingu og taka ber orð þeirra alvarlega. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu segir að sú staðreynd að núgildandi lög gangi lengra en lágmarkskröfur samkvæmt Evróputilskipun feli ekki í sér sjálfstæð rök til breytinga hjá ríki sem vilji vera leiðandi í mannúð og mannréttindum.

Hér hefur töluverðum tíma verið eytt í að ræða um séríslenskar reglur, eins og það sé sjálfkrafa neikvætt að vera frábrugðin öðrum. Ef afnám svokallaðra íslenskra sérreglna hefur í för með sér skerðingar á réttindum og réttaröryggi fólks er e.t.v. besti kosturinn að halda í þessar íslensku sérreglur og jafnvel benda nágrannaþjóðum okkar á þær. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír voru eðlilega duglegir að hreykja sér af framgöngu Íslands eftir að við tókum óvænt við sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á síðasta kjörtímabili. Ísland var ítrekað sagt í fremsta flokki á sviði mannréttinda og fólk barði sér á brjóst í umræðum um frelsi, mannúð og mannréttindi. Hvar eru þessi sjónarmið, þetta mikla stolt af stöðu mannréttindamála á Íslandi í umræðunni um útlendingamál?