154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka fyrir þessa góðu umræðu sem verið hefur hér í dag um þetta mikilvæga frumvarp sem við í allsherjar- og menntamálanefnd tökumst nú á við. Ég vænti þess að okkur gangi vel að fara yfir málið, taka til okkar gesti og koma því hér í 2. umræðu í þingsal hið fyrsta.

Mig langar líka að segja að ég fagna því að það eru svolítið breyttar áherslur og breyttar raddir, finnst mér, í þessum þingsal þó að sitt sýnist hverjum, sem er auðvitað bara eðlilegt og þannig eiga stjórnmálin að virka, en mér finnst ég finna ja, meiri samhljóm með því að Ísland eigi ekki að skera sig úr hvað þetta regluverk varðar miðað við önnur Norðurlönd, þau lönd sem við berum okkur oft saman við þegar við berum saman velferðarþjónustuna og viljum vera best í heimi, og röðum okkur þar iðulega með ágætum félögum okkar á hinum Norðurlöndunum. Þá held ég að flestum sé það ljóst að það þurfi að byggja ákveðna varnarveggi í kringum okkar velferðarkerfi og það sé þar af leiðandi eðlilegt að Ísland sé á svipuðu róli og önnur Norðurlönd þegar kemur að þessu regluverki.

Mig langar því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með frumvarpið og hafa mælt fyrir því hér í dag og að við séum þá komin með það inn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég óska eftir góðu samstarfi við alla þá fulltrúa sem sitja í þeirri nefnd og vænti þess að við munum ná að fara hratt, örugglega en líka mjög vel yfir þetta mál og skila því hér inn í 2. umræðu á næstu vikum.