131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:53]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Sumir eru orðnir svo frjálslyndir að þeir vita ekki í hverju þeirra eigin dónaskapur liggur. Þeir verða að fara yfir og lesa sínar ræður sjálfir.

Ég get sagt eftir þessa umræðu að ég get aftur á móti í meginatriðum tekið undir ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem er flokksbróðir hv. þingmanns. Í meginatriðum get ég tekið undir þá ræðu, þá sýn og þá hugsjón sem hann setti fram. Það liggur fyrir að sumir bændur eru í útræði frá jörðum sínum, trillukarlar eru t.d. í fiskveiðikerfinu (Gripið fram í.) í dag. (Gripið fram í.) Aðrir eru þar ekki. Það liggur líka fyrir að menn eiga veiðirétt og netlagnir í sjónum í dag, útræðisjarðir. En deilan snýst um það að þeir vilja komast inn í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er deila við hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki þann sem hér stendur, og hana heyja þeir auðvitað á þeim vettvangi. Sjálfsagt leita þeir samninga.

Ég get sagt það hér að auðvitað liggur öll sú fyrirgreiðsla fyrir. Allar þær upplýsingar sem þeir biðja um og eiga samstarf um við landbúnaðarráðuneytið eru þeim látnar í té til að þeir geti farið yfir sín mál. Bændasamtökin hafa tekið samstarfið í fóstur og vinna í því. Þeir hafa veiðirétt sinn í netlögnum. Sumir eru í kvótakerfinu frá útræðisjörðum og aðrir vilja komast inn í það. Um þetta snýst deilan og stefnir kannski í að fari fyrir dómstóla. Ég hef svo sem lítið meira um málið að segja á þessu stigi. Ég get tekið undir að vissulega mundi þetta styrkja sjávarjarðirnar hringinn í kringum landið sem búsetujarðir og kraftmiklar jarðir ef þeir næðu þessum rétti sínum. Þarna er við lagaflækjur að eiga og lögfræðingar beggja vegna sitja yfir því. Kannski stefnir þetta mál fyrir dómstóla til úrskurðar.