138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þriðjudagurinn 23. febrúar verður í minnum hafður. Allar predikanir úr þessum stóli hingað til í dag hafa verið mjög merkilegar og hefur verið gott að heyra í þingmönnum um mál þeirra.

Mig langar að fylgja í fótspor þeirra og tala um sveitarstjórnarkosningar sem fram undan eru. Nú stendur almenningur í mörgum sveitarfélögum frammi fyrir því að sveitarstjórnir þeirra hafa algjörlega klúðrað fjármálum þeirra sveitarfélaga sem þær hafa stýrt. Þar ber Álftanes náttúrlega hæst. Það er svo að koma í ljós í síauknum mæli að sömu sveitarstjórnarmenn ætla að raða sjálfum sér aftur upp í framboð í næstu kosningum. Eina úrræði íbúanna er að hella sér á fullu afli þá út í pólitík sjálfir og stofna ný stjórnmálasamtök til þess að reyna að kljást við þá sem hafa klúðrað málum. Þetta er gríðarleg vinna og er ekki hægt að ætlast til þess að neitt venjulegt fólk standi í slíku. Lög um persónukjör sem nú eru strönduð inni í allsherjarnefnd hefðu gefið fólki tækifæri til þess að endurraða á lista í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Því langar mig að beina þeim orðum til þingmanna, og þá kannski sérstaklega samflokksþingmanna hv. formanns allsherjarnefndar, um að hér verði gerð bragarbót á þessu máli. Það verði alla vega gerð undantekning í þessari löggjöf um að taka megi út þau sveitarfélög sem eru hvað skuldugust og þeim verði gefinn kostur á því að hafa persónukjör í komandi sveitarstjórnarkosningum til þess að íbúar þessara sveitarfélaga geti með afgerandi hætti losað sig við þá sveitarstjórnarmenn sem valdið hafa íbúunum ómældu fjárhagslegu tjóni. Það er mjög þung krafa að krefjast þess að þeir sjálfir stofni til nýrra framboða í sveitarstjórnarkosningum og í rauninni alveg sjálfsagt að þeir fái þennan valkost að geta valið sjálfir í sveitarstjórn og þá jafnvel þvert á lista. Það eru miklar lýðræðisumbætur (Forseti hringir.) fólgnar í þessu og væri sómi að fyrir þingið ef það virti þessa ósk.