140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu sem var greinargóð. Mig langar sérstaklega að hrósa hv. þingmanni fyrir að gera tilraun til að ala hæstv. utanríkisráðherra aðeins betur upp varðandi störfin í þingsalnum. Það veitir stundum ekki af að fara aðeins yfir reglurnar. En hverjar metur hv. þingmaður afleiðingar frumvarpsins? Nú kom það fram í ræðu hv. þingmanns að það liggur ekkert fyrir um það að farið hafi verið í einhverja greiningu á því hverjar afleiðingarnar eru, ekki reynt að taka nein dæmi eða neitt slíkt. Hvað telur hv. þingmaður að muni gerast í greininni? Hvað mun gerast hjá þeim fyrirtækjum sem nú hafa verið að bíða eftir einhverju öryggi varðandi starfsemi sína og eru tilbúin að fara í ákveðnar fjárfestingar? Mikil þörf er á fjárfestingum í sjávarútveginum en hvað munu þessi fyrirtæki gera? Og hverjar telur hv. þingmaður líkurnar á því að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni hafa þær afleiðingar að ríkisbúskapurinn muni ná betri stöðu en er í dag?