150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.

[11:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það verði augljósir samstarfsfletir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í framhaldinu vegna fjöldamargra mála sem augljóslega eru að koma á okkar dagskrá. Ég gæti nefnt sem dæmi að við stefnum að því að koma með fjármálastefnu og fjármálaáætlun að vori sem augljóslega munu ekki geta fengið þá þinglegu meðferð í tíma sem undir venjulegum kringumstæðum væri í boði. Það kallar á miklu nánara samstarf og samvinnu um allan aðdraganda og meðferð þess máls í þinginu.

Í augnablikinu stöndum við frammi fyrir hreinlega ákveðnu neyðarástandi þar sem tekjur í einstaka fyrirtækjum falla um meira en helming í mörgum tilvikum. Ég heyrði af dæmi í vikunni þar sem eitt fyrirtæki, sem hefur 300 viðskiptamenn, fékk greiðslur frá tveimur þeirra á eindaga. Það er þessi staða sem við ætlum næst að bregðast við og er svo mikið kallað eftir.