Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir þessar fullyrðingar hv. þingmanns og spyr á móti hvort hv. þingmaður sé yfir höfuð á móti sérstöku hagsmunamati barna. Textinn er skýr og það er verið að skýra hann enn frekar með þessu. Það er bara mjög mikilvægt að hér skuli ávallt framkvæmt sérstakt hagsmunamat þegar börn eiga í hlut og ég held að við eigum að fagna því. Þingmenn eiga bara að fagna því. Hv. þingmaður á að fagna því að hér sé búið að skýra það og hér sé breytingartillaga þess efnis að börnin verða höfð í fyrirrúmi þegar kemur að þessum málaflokki. Beitingin er sem sagt í samræmi við 2. mgr. 1. gr. barnalaganna, nr. 76/2003, þar sem mælt er fyrir um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera hér, hv. þingmaður, þegar kemur að þessari breytingartillögu. (Gripið fram í.) Mér finnst hv. þingmaður vera einhvern veginn að reyna að finna eitthvað neikvætt við þetta. Hvernig er hægt að reyna að finna eitthvað neikvætt við það að það eigi að vera sérstakt hagsmunamat barna? Ég skil það bara ekki, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Þetta er skýrt og við eigum öll að sammælast um að fagna þessu.