Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið mikið talað um það í þessari umræðu að við séum með ákvæði sem hafa eitthvert aðdráttarafl og að allir flóttamenn heimsins hljóti nú að vera algerlega með alla löggjöfina hér og smáatriðin í henni á hreinu. Þess vegna þurfi að senda skilaboð með henni, sem er einmitt áhugavert í ljósi þess sem hv. þingmaður er að segja. Ef flóttafólk um allan heim er svo glöggt að sjá að í þessu frumvarpi sé verið svipta það allri þjónustu þá hlýtur það að vera jafn glöggt að sjá að það eru ráðherrar sem eru búnir að segja: Nei, nei, þetta verður allt í lagi. En akkúrat þetta ákvæði, sem varðar sviptingu þjónustu eftir 30 daga, er að mínu mati ofboðslega gott merki um hversu illa ígrundað þetta mál er. Þessu er ætlað að einhvern veginn fæla fólk frá því að sækja hér um vernd og fæla það eða knýja það til þess að fara heim, svelta það til hlýðni eins og einhver hefur orðað það, en það er ekkert þar sem hugsað er: Hvað ef þetta virkar ekki? Hvað ef fólk fer ekki heim?

Ég spurði dómsmálaráðuneytið ítrekað að þessu og fleiri aðila við meðferð málsins: Hvað ef þau fara ekki, hvað þá? Ég er ekkert hugsa um fólkið, ég er að hugsa samfélagið; ætlum við að fylla göturnar hér af heimilislausu fólki sem er í örvæntingarfullri stöðu? En þau eiga bara að fara heim. (Forseti hringir.) Þau eiga bara að fara heim, það var eina svarið. Það er engin hugsun (Forseti hringir.) á bak við frumvarpið. Þetta er einhvers konar móðgaður þrýstingur. Það er ekkert, engin heil hugsun þarna á bak við. Þess vegna mun það ekki virka.