154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

efling náms og samræming einkunnagjafar í grunnskóla .

[15:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn um þetta málefni sem hefur verið talsvert mikið í umræðunni undanfarið vegna nýlega útkominnar rannsóknar. Ég vil segja að markmiðið með þessum breytingum á sínum tíma var gott og það var göfugt en hins vegar er mjög mikilvægt þegar við förum af stað í svona að við lærum af því. Ég vil taka undir margt af því sem kemur fram í umræddri rannsókn og í umræðu um þetta mál undanfarnar vikur og mánuði, m.a. varðandi undirbúning nemenda áður en þeir koma í háskóla, hvernig ekki sé verið að nálgast þetta nægilega heildrænt og að þegar einstaklingar koma í háskóla séu þeir ekki nægilega vel undirbúnir. En ekki hvað síst mikilvægi óformlegs náms; íþrótta, tónlistar og annars, hvernig það eru vísbendingar um að það sé miklu erfiðara að takast á við slíkt samhliða námi.

Spurningarnar sem hv. þingmaður spyr, m.a. varðandi það að nálgast þessi mál í efstu bekkjum grunnskóla á nýjan leik með breytingar í huga — ég tek undir það og ég held að við þurfum að nálgast skólakerfið miklu heildrænna en við höfum verið að gera. Það hefur verið þannig að það hefur ekki verið nægilegt samtal á milli grunnskólastigsins og framhaldsskólastigsins og það þurfum við að efla. Ég held að það stafi að verulegu leyti af því að sveitarfélögin stýra öðru skólastiginu og ríkisvaldið hinu. Við nefnilega gleymum því oft þegar við gerum breytingar að það þarf líka að innleiða þær. Það er þar sem okkur hefur ekki tekist nægilega vel til í íslensku skólakerfi.

Ég bind miklar vonir við nýja þjónustustofnun í menntamálum og nýtt skólaþjónustufrumvarp sem nú er í samráðsgátt og breytt hugarfar gagnvart samstarfi á milli skólastiga, stjórnsýslustiga og annarra, en því þurfum við að fylgja eftir vegna þess að við getum ekki búið við framhaldsskólakerfi sem er með þessum hætti, þrjú ár, ef nemendurnir koma ekki nægilega vel undirbúnir eins og hv. þingmaður benti á. Það krefst aðgerða en það krefst þess líka að við innleiðum þær (Forseti hringir.) en tölum ekki bara um þær. Seinni tvær spurningarnar næ ég að koma inn á í seinna svari.