135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:29]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer vel á því að hv. þm. Bjarni Harðarson hefji mál sitt um frumvarp til fjáraukalaga á því að leggja mönnum línur varðandi notkun á íslensku máli. Hann hefur gert það reglulega frá því að við höfum átt samskipti í þinginu og ég skora á hann að halda því til streitu því að tengja má það ágætri umræðu sem fór fram hér í gær að frumkvæði hv. þm. Ólafar Nordal um stöðu íslenskrar tungu. Ég heiti því að leggja honum lið í þessu máli sem mest ég má en fátt annað get ég tekið undir í þeirri ræðu sem hann flutti þingheimi áðan sem sérstakur talsmaður Framsóknarflokksins við fjárlagagerðina.

Í ræðu sinni fór hv. þingmaður um víðan völl og ræddi að mínu mati miklu frekar þau atriði sem lúta að fjárlagafrumvarpi næsta árs en því frumvarpi sem hér liggur fyrir og að einbeita sér að því að taka þá á því vandamáli sem vissulega endurspeglast í frumvarpinu, hvernig ríkisreksturinn á það til að losna úr þeim böndum sem Alþingi hefur hnýtt hann í. Í stað þess að koma með fastar og fullmótaðar tillögur í því efni lagði þingmaðurinn meira upp úr því að vitna til þess að í fyrri þingræðum sem hann hefði lesið og kynnt sér áður en hann hóf þessa umræðu hefði þetta verið stef sem hefði verið sungið alla tíð og menn væru hálfpartinn við það að gefast upp á því.

Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, vitnaði um það áðan að fjárlaganefnd hefur einbeittan vilja til að taka á í þessum málum og ég heiti á hv. þingmann að taka á með okkur í þeim efnum.