138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem fjölluðu á málefnalegan hátt um þetta mikilsverða mál. Það sem við ræddum hér er eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Ég get alveg sagt að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að hæstv. forsætisráðherra skyldi leyfa sér að vitna í bloggfærslur og fara svo með rangt mál.

Mig langar til að leiðrétta tvo hluti. Hún sagðist hafa spurt Stoltenberg hvort lánið væri raunhæft. Það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt, í bréfinu segir: „Ég veit hver afstaða þín er.“ Á þetta bentu norskir fjölmiðlar og það er kannski þess vegna sem samfylkingarmenn reyna núna að gera lítið úr norskum fjölmiðlum. Síðast þegar ég vissi var Per Olaf Lundteigen enn þá í fjárlaganefnd og talsmaður flokks síns í efnahags- og fjármálum.

Ég held reyndar líka að það sé áhyggjuefni hversu daufir óbreyttir þingmenn Samfylkingarinnar eru. Þeir virðast hafa það eina hlutverk í þingsal að vera viðhlæjendur þeirra örfáu sem hafa eitthvað til málanna að leggja innan síns flokks. Þetta er ekki þinginu til framdráttar að mínu mati. Ég ætla að taka það sérstaklega fram að þetta snýst um eitt, þingræði, og við þurfum að senda formlega beiðni til Noregs. Við teljum að slík formleg beiðni fái jákvæða umfjöllun. Við höfum aldrei haldið því fram að það sé algjörlega öruggt að við fáum lán.

En vegna þess að við framsóknarmenn viljum vera heiðarlegir ætlum við að leggja fram plan B og senda á alla fjölmiðla hér í dag þar sem við förum yfir þá leið okkar sem við ræddum við Norðmenn og gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn óþarfan. Það liggur fyrir eins og margítrekað kom fram í dag að (Forseti hringir.) aðgerðaáætlun þeirra mun leiða Ísland inn í fátækt. Það á ekki að drepa niður frumkvæði, jafnvel þótt það komi (Forseti hringir.) frá framsóknarmönnum og Samfylkingunni hugnist það illa.