149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu sem og þeim sem hér hafa talað í dag. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður um margt og nauðsynlegt fyrir okkur að takast á við að ræða þetta.

Margs er að minnast á fullveldisafmælinu og fyrir 100 árum eða svo voru fá lýðveldi í heiminum, þau voru í kringum 16 talsins. Í dag býr rétt innan við helmingur mannkyns við pólitískt frelsi samkvæmt hugveitunni Freedom House. Fyrir 100 árum voru mjög mörg réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag ekki til staðar. En með holti og bolti, með kollsteypum, með krísum á íslenskan máta hefur Ísland komið sér áfram á braut aukinnar velsældar og réttinda.

Þegar ferfalt húrra var hrópað við stjórnarráðshúsið fyrir hinu nýja fullveldi voru örfá ár síðan vistarbandinu var aflétt með lögum, 1894, en Ísland var síðast Evrópuríkja til að gera það. Þegar Ísland fékk fullveldi fyrir öld höfðu karlar kosningarrétt, ef þeir áttu eignir, en konur og vinnuhjú eldri en fertugt fengu að taka þátt í lýðveldinu. Það mátti svipta fátækt fólk kosningarétti ef það þáði sveitarstyrk.

Réttindi karla, kvenna, fólks með fötlun, samkynhneigðra, hinsegin fólks og fleiri jaðarsettra hópa hafa áunnist með baráttu þeirra fyrir jafnrétti. Ég er ekkert endilega viss um að það hafi verið traust sem hafi orðið til þess að þessi réttindi fengust. Þau fengust fyrst og fremst með baráttu fólks sem hafði ekkert að bjóða, ekkert að selja nema vinnuaflið og tíma. Það var með samstöðu og baráttuþreki sem þessir hlutir áunnust. Og miðað við fyrirsagnir gamalla dagblaða á borð við „Trylltur skríll ræðst á Alþingi“ var ekkert endilega mikið traust yfir hinar stóru pólitísku átakalínur í dentíð, ekki frekar en í dag.

Það breytir því þó ekki að traust er hornsteinn lýðræðis. Þetta kemur ágætlega fram í skýrslunni sem við fjöllum um í dag. Þar kemur einnig fram hversu alvarleg áhrif það hefur á lýðræðið ef það verður viðvarandi vantraust, hvort sem það er vantraust almennings gagnvart Alþingi sem stofnun eða vantraust hér í þessum sal, á milli okkar. Við skulum ekki halda að við á litla Íslandi séum ónæm fyrir þeirri ólýðræðislegu öldu sem nú skellur á Vesturlöndum. Í nágrannalöndum okkar hafa ólýðræðisleg öfl náð fótfestu í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum. Það er því afar mikilvægt að taka þetta umræðuefni mjög alvarlega og því fagnaðarefni að fá tækifæri til að ræða það í dag.

Í skýrslunni kemur fram að það hafi neikvæð áhrif á traust ef uppi er sá skilningur á stefnumótun stjórnvalda til lengri tíma að hún sé bara einhver viðmiðun sem megi kollvarpa næst þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum. Það fer ekki vel á því.

En við höfum verið að fikra okkur í rétta átt hvað þetta varðar. Áætlanir eru að verða til lengri tíma og lifa þar með ríkisstjórnir. Það er gott. En það krefst þess líka að gera verður málamiðlanir til þess að friður ríki um langtímaáætlanir.

Það er mikilvægt að það ríki friður um langtímastefnu. Lýðræðið er besta leiðin sem mannkynið hefur fundið upp til að útkljá deilumál og taka ákvarðanir. Í staðinn fyrir að ég færi nú og skoraði t.d. hv. þm. Brynjar Níelsson á hólm á Austurvelli náum við saman málamiðlunum um þau grundvallarmál sem við erum ósammála um og við unum þeim málamiðlunum. Við gerum með okkur sáttmála og við stöndum við hann. Á þessu bjargi byggir traust. Ef það er ekki til staðar förum við að hringla í sífellu með grundvallarákvarðanir og á meðan gerist ósköp lítið. Engar ákvarðanir, skipið er vélarvana og rekur.

En ábyrgðin er okkar allra, hún er okkar sem sitjum í meiri hluta á hverjum tíma en hún er líka að nokkru leyti í höndum minni hluta hvers tíma, í því hvernig orðræðu við stjórnmálamenn stundum hérna, hvort við stundum svokölluð sjálfsmyndarstjórnmál til að splundra þjóðinni niður í sísmækkandi hópa og upphefja okkur sjálf um leið eða hvort við reynum að byggja brýr og leggja áherslu á það sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar. Við vinnum meira saman en nokkru sinni fyrr í þverpólitísku samstarfi við undirbúning ýmissa stórra mála og þess vegna þykir mér haustið fara vel af stað. Hér hefur verið annar bragur á umræðunni og ég held að þingheimur geti verið svolítið ánægður með það.

Forsætisráðherra gerði vel í því að láta vinna þessa skýrslu. Það er líka táknrænt að þetta hafi verið eitt af hennar fyrstu verkum, það sýnir hug og framkvæmd í verki. Við eigum að drífa okkur í að einhenda okkur í það sem við getum framkvæmt, þann lista sem er að finna í skýrslunni, en við þurfum um leið að vanda okkur við það verk. Ég brýni okkur öll til þess að ganga sameinuð til þessa verks, vera reiðubúin til að horfa gagnrýnum augum á okkur sjálf og hafa vilja til samstarfs því að traust á stjórnmálum er viðfangsefni okkar allra, okkar sem hér inni erum sem og samfélagsins alls.