151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að við endum í samhljómi, ég og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Það getur verið mjög málefnalegt að horfa til þessara sjónarmiða. Með sama hætti er horft til ýmissa annarra sjónarmiða þegar verið er að velja í nefndir. Eins og fram kom í máli mínu áðan hljóta þingflokkar ekki síst að horfa til styrkleika viðkomandi þingmanna, áhugasviðs þeirra og hvar þeir eru líklegastir til þess að koma að gagni, þegar þeir velja fulltrúa sína í einstakar nefndir. Það getur farið eftir allt öðrum sjónarmiðum en kynferði. Það er ekki svo að í því felist endilega einhver misbeiting eða eitthvert misrétti gagnvart öðru kyninu að það raðist í nefndir þingsins með einhverjum tilteknum hætti. Það er ekki verið að gera lítið úr konum, af því að hér var nefnt dæmi áðan um að þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í fjárlaganefnd væru karlar. Það er ekki verið að gera lítið úr körlum (Forseti hringir.) þegar tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd eru konur. Það raðaðist bara þannig vegna áhugasviðs (Forseti hringir.) og styrkleika viðkomandi þingmanna.