Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:39]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða stærstu kvennastétt landsins, grunnskólakennara. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu átti einungis að veita kennurum örfá stig fyrir verkstjórn þrátt fyrir að hún sé óumdeilanlega fyrir hendi og sennilega flóknari en verkefnastjórar horfast almennt í augu við vegna fjölbreytileika, þroska og aldurs þeirra sem verkstýrt er. Samkvæmt starfsmatinu sem starfshópur forsætisráðherra leggur til að sé notað skoraði ungt fólk í sumarstarfi í unglingavinnunni hærra en grunnskólakennari í verkstjórn. Með fullri virðingu fyrir því unga fólki þá er svona niðurstaða hreinlega niðurlægjandi fyrir grunnskólakennara og sýnir í hnotskurn hversu veik staða þessarar kvennastéttar er. Í grunnskólum er línuleg stjórnun og hver kennari ber gríðarlega mikla ábyrgð sem ekki er metin til launa. Ábyrgð á velferð og námi barna og ungmenna er lítils metin á meðan t.d. nefndasetur og möndl með peninga er hátt metið. Endurspeglar það verðmætamat okkar sem þjóðar. Það er líka staðreynd að ólíkt t.d. heilbrigðisstéttum, sem geta aukið við sín laun með yfirvinnu og vaktaálagi, geta kennarar það ekki. Starf skólanna fer fram á dagvinnutíma og möguleikar kennara á að hækka laun sín með yfirvinnu eru litlir sem engir. Tæplega fimmtugur grunnskólakennari með 15 ára starfsreynslu er með 668.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Sem alþingismaður borga ég álíka mikið í skatt á hverjum mánuði og ég fékk í laun sem grunnskólakennari. Hvernig ætli þingmenn myndu koma út úr starfsmatinu? Með reynslu af hvoru tveggja veit ég að báðum þessum störfum er erfitt að lýsa fyrir þeim sem ekki þekkja til. Þau eru bæði fjölbreytt og krefjandi og passa bæði mjög illa inn í starfsmat. En ég er ekki viss um að þingmaðurinn Ásthildur Lóa eigi endilega skilið að vera með mikið hærri laun en kennarinn Ásta Lóa og minni á að einu sinni voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara. Það væri ekki úr vegi að taka þau viðmið upp aftur. Það er a.m.k. ljóst að þótt starfsmatið geti virkað fyrir einhverjar stéttir virkar það ekki fyrir grunnskólakennara, stærstu kvennastétt landsins. Og hvað ætlar forsætisráðherra að gera í því?