Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:43]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kynjaskiptur vinnumarkaður sé einn stærsti orsakaþáttur kynbundins launamunar. Sögulega hafa sum þau störf sem hafa verið álitin kvennastörf einmitt verið þau lægst launuðu eða jafnvel ólaunuð, en þar má nefna þau störf sem fylgja hefðbundnum hugmyndum um umönnunarhlutverk kvenna, ólaunuðu störfin sem konur tóku að sér og taka að sér í umönnun annarra einstaklinga. Söguleg viðhorf gagnvart slíkum umönnunarstörfum virðast enn ráðandi að einhverju leyti. Á vinnumarkaði má sjá að konur í umönnunarstörfum eru meðal lægst launuðu starfsstéttanna sem um ræðir. Matið virðist vera að þeirra störf skipti einfaldlega ekki jafn miklu máli í dag og önnur störf sem karlar sækjast fremur í þrátt fyrir að hæfniskröfur starfanna kunni að vera sambærilegar. Það segir í skýrslunni sem hér um ræðir, með leyfi forseta:

„Hefðbundin karlastörf fela oft í sér sköpun áþreifanlegra verðmæta sem auðvelt er að meta til fjár en á hinn bóginn fela hefðbundin kvennastörf gjarnan í sér sköpun óáþreifanlegra verðmæta sem ýtir undir vanmat á samfélagslegu virði starfanna.“

Gömul viðhorf gagnvart störfum þar sem konur eru í meiri hluta virðast enn ráða miklu um möguleika þeirra til að fá starfskjör við hæfi. Meðal tillagna skýrslunnar, sem hefur verið rædd hér, er að kortleggja og greina kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og er það meðal verkefna aðgerðahóps sem hæstv. forsætisráðherra skipaði á grundvelli skýrslunnar um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Ég hef mikinn hug á því að vita hvort að hæstv. forsætisráðherra telji að sú vinna muni skila sér að einhverju leyti inn í komandi kjaraviðræður og hvort þessar viðræður muni leiða til þess að draga úr launamisrétti gagnvart þeim.