155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

staða sérskóla fyrir fötluð börn.

[10:53]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja máls á stöðu þeirra fötluðu barna sem ljóst er að munu ekki fá skólavist í sérskólanum Klettaskóla og menntun við hæfi. Staðan grafalvarleg eins og hæstv. barnamálaráðherra þekkir. Nú liggur fyrir að 11 börnum var synjað um skólavist í skólanum í haust og munu því að óbreyttu fara í almenna skóla. Húsnæði Klettaskóla var upphaflega byggt fyrir 70–90 nemendur en þar eru nú um 140 nemendur með þroskahömlun og fjölfötlun. Húsnæði skólans hefur því í mörg ár verið of lítið. Það er sömuleiðis ákall um að hæft starfsfólk fáist til starfa. Þetta er líka staðan í Arnarskóla, sem er sjálfstæður skóli fyrir fötluð börn sem þarf líka að synja umsækjendum um skólavist.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefur ráðuneytið fylgst með stöðunni? Og ef svo er, hver er að hans mati helsta ástæða þess að staðan er orðin eins og hún er? Hvaða leiðir eru færar og tækar að mati hæstv. ráðherra til að tryggja öllum börnum á þessu landi lögbundna menntun og eftir atvikum heilbrigðisþjónustu við hæfi?

Ég tel það skipta máli í þessu sambandi, og ítreka það, að málefni grunnskólanna séu á herðum sveitarfélaganna og ég veit að hæstv. ráðherra mun koma því að. Nú er heilbrigðisþjónustan það ekki og ráðherra ætti að láta málið sig varða, sérstaklega þegar um er að ræða hagsmuni okkar viðkvæmasta hóps í samfélaginu.