155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[11:50]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Þetta er mikilvægt frumvarp og það kemur fram á góðum tíma. Þegar við erum að ræða miklar og stórar breytingar á skólakerfinu þá er þetta eitthvað sem hefur staðið í stað í gríðarlega mörg ár og þörf er á að breyta.

Það er eitt í frumvarpinu sem ég velti svolítið fyrir mér og það snýr að þessum gjaldfrjálsu námsgögnum. Ég kem ekki hingað af því að ég er andvíg þeim áformum, mér finnst bara fínt að þetta sé eitt af markmiðunum og það styður við jafnrétti til náms. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort það hafi verið framkvæmd einhvers konar úttekt á því hvaða námsgögn eru þegar til staðar í framhaldsskólunum og á hvaða formi þau eru. Við þekkjum og vitum að í framhaldsskólum eru námsgögnin allt öðruvísi en á öðrum skólastigum, háskólastigi eða grunnskólastigi, og þar eru kennarar mjög mikið í því að útbúa efnið sitt sjálfir og prenta það út og selja einhver hefti og ýmislegt eða hvernig sem það er. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið kortlagt, hvort það eigi að stíga þarna inn í og þetta verði ekki lengur heimilt. Mér finnst mjög mikilvægt að við ýtum undir frelsi kennaranna sjálfra til að búa til námsefni og koma námsefni á dagskrá sem þeim finnst vera viðeigandi í námsgreinum sem þeir kenna. Þannig að ég velti fyrir mér hvort ætlunin með þessu sé að stíga inn í það hvernig kennarar haga sínu eigin námsefni og þar af leiðandi sinni eigin kennslu.