151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[17:55]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið nú hv. þingmann að hlusta á það sem hér er sagt. Það hefur enginn talað um að einhver hafi pantað einstaka umsagnir. Hins vegar sagði ég frá því, og að mér þætti það nokkuð einstakt, að beðið var um umsagnir í þessu tilviki frá sendiherrum sem er, held ég, nokkuð sem hefur mjög sjaldan gerst, ef nokkurn tímann. Ég hef engar athugasemdir við það, bara ekki nokkrar. Hver og einn á bara að segja hvað viðkomandi finnst um það.

Allt það sem hv. þingmaður segir um ágæti starfsfólks utanríkisþjónustunnar get ég tekið undir og get bætt í og ég er ánægður með að hv. þingmaður kunni að meta þau störf. Hins vegar fór ég yfir það, bæði í framsöguræðunni og í andsvarinu, af því að bent var á það að hugsanlega — það er á hinn bóginn mjög langsótt — væri hægt að hafa fleiri sendiherra en eru núna eftir að frumvarpið hefði verið samþykkt. Ég fór sérstaklega yfir það, bæði í framsögu minni og andsvörum áðan, að við breyttum því, þannig að það liggur fyrir, þó svo að það hafi verið mjög langsótt áður þá er það ekki hægt núna.

Varðandi þær tillögur sem meiri hluti hv. utanríkismálanefndar kom með eru þær komnar inn í frumvarpið, þannig að tekið var tillit til þeirra athugasemda. En svo hvet ég hv. þingmann til þess, af því að við höfum nógan tíma — ég vil gjarnan taka þessa umræðu því að hún hefur ekki verið tekin mikið á opinberum vettvangi, ég vona að hún verði meira á opinberum vettvangi núna — að fara aðeins efnislega í það hvað hv. þingmaður sér að þessu frumvarpi og þá getum við skipst á skoðunum. En svo það sé alveg á hreinu að þótt farin hafi verið sú leið sem hv. utanríkismálanefnd gerði, sem mér finnst svolítið áhugaverð, þá hef ég ekkert á móti því, ekki neitt Allir eiga rétt á því að skiptast á skoðunum um þetta mál eins og öll önnur.