151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[18:02]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Það kemur hins vegar nokkuð á óvart miðað við hve mikið var lagt á sig til að koma í veg fyrir þetta mál færi í gegn, það var forgangsmál hjá stjórnarandstöðunni að stoppa það, að menn skyldu þá ekki koma og ræða málið efnislega hér, svo það sé sagt. Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór yfir er utanríkisþjónustan afskaplega mikilvæg og þetta mál er liður í því að styrkja hana og efla. Eins og hv. þingmaður vísaði til þá er hún hlutfallslega lítil í gjörðum og er einn af fáum málaflokkum sem lækkað hafa á undanförnum áratugum en ekki hækkað hvað fjármagn varðar, þ.e. hin hefðbundna utanríkisþjónusta, en bæði þróunarmálin og varnarmálin hafa hins vegar hækkað.

Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum þessi mál. Og ef það er eitthvað sem menn telja að betur megi fara í frumvarpinu almennt þá verða þeir auðvitað að taka þá umræðu og það er enginn betri staður til þess en þingið. Ég geri engar athugasemdir við að fólk sé ekki sammála um alla hluti, alls ekki. Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, sem er líka í hv. utanríkismálanefnd, fór yfir, þá er þetta mál búið að fá mikla umfjöllun þar og eins áður og var m.a. kynnt fyrir starfsmönnum og reynt að vinna það með eins góðum hætti eins og mögulegt er. Stóra einstaka málið er það að okkar litla utanríkisþjónusta verður að vera vel í stakk búin til þess að gæta hagsmuna Íslands því að við höfum ekki önnur betri tæki til þess en hana.

Sérstaða okkar felst m.a. í því að þegar maður er með svona litla utanríkisþjónustu verða t.d. starfsstöðvarnar mjög fámennar. Hvað þýðir það að starfsstöðvarnar séu mjög fámennar? Það þýðir að það reynir mjög mikið á hvern starfsmann. Ég fullyrði það að almenna reglan sé sú að við eigum fjölhæfara starfsfólk í utanríkisþjónustu okkar en í utanríkisþjónustu sem við berum okkur saman við, og þekking þess er breiðari vegna þess að hún verður að vera það. Við eigum ekki aðra valkosti. Það er enginn vafi í mínum huga að það fólk sem valist hefur til starfa í utanríkisþjónustunni er hæft og hefur staðið sig vel. Um það eru fjölmörg dæmi. Það er heldur enginn vafi í mínum huga að verkefni sem bíða utanríkisþjónustunnar eru mjög fjölbreytt og krefjandi. Sú staða sem komin er upp út af þessari farsótt kallar á enn fjölbreyttari og meira krefjandi verkefni en við sáum fyrir.

Ég ætla að nota tækifærið og þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þó þátt í umræðunni. Ég hlakka til að taka þessa umræðu, við munum örugglega gera það hér á þinginu eða annars staðar, því að það er afskaplega mikilvægt að við ræðum þessi mál.