155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[11:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu um þetta frumvarp til laga um námsgögn og taka það fram í upphafi míns máls að við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp. Ég fagna því að þessi lög komi fram og ég tel að þetta muni bæta og styrkja umhverfi skólanna hér á landi og það er mikilvægt því að í góðu samfélagi ganga börn, óháð stöðu sinni, í góða skóla þar sem þau læra um fjölbreytta hluti. Mér finnst jákvætt að hér eigi að setja fram gæðamarkmið því að góð námsgögn skipta máli.

Mér fannst ekki alveg ljóst hvað það er sem telst til námsgagna. Námsgögn geta verið mjög fjölbreytileg. Í mínum huga er mikilvægt að hér sé ekki einungis átt við rafbækur heldur geti þetta verið alls konar námsgögn. Mér finnst það ágætisforgangsröðun að byrja með yngstu bekkina en vegna þess að hér er lagt til að námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum skuli verða gjaldfrjáls, sem ég fagna gríðarlega, þá finnst mér mikilvægt að til að mynda sé iðnnámið haft með. Þar gætum við þess vegna verið að tala um verkfærin. Hamar getur verið námsgagn í því samhengi. Þetta er eitthvað sem e.t.v. mætti skýra aðeins betur. En það breytir ekki mikilvægi málsins í heild sinni sem ég og við í Vinstri grænum erum fylgjandi.

Mig langar að fagna alveg sérstaklega 4. gr., um það að námsgögn skuli verða gjaldfrjáls. Lykilatriði í því að hér sé raunverulegt jafnrétti til náms er að börn og ungmenni geti stundað nám óháð til að mynda efnahag heimilisins. Það var gríðarlega mikilvægt skref sem var stigið með því að koma á gjaldfrjálsum skólamáltíðum og við þurfum að halda áfram í sömu átt. Því miður, líkt og hæstv. ráðherra fór yfir í sinni framsögu, hefur dregið úr þeirri jöfnu stöðu sem hér var og það er eitthvað sem við þurfum að breyta. Það er atriði sem mér finnst í rauninni vera eitt af stóru málunum þegar kemur að því að móta íslenskt samfélag, þ.e. að hér geti öll stundað nám. Ég verð að segja að fyrir mitt leyti myndi ég mjög gjarnan vilja að námsgögn í tónlistarskólum væru líka gjaldfrjáls og held að það eigi algjörlega að vera framtíðarmúsíkin vegna þess að það á auðvitað líka að vera jafnræði og jöfn tækifæri þegar kemur að því að vera í tónlistarnámi. Það á ekki að stýrast af efnahag heimilisins, enda vitum við að listrænir hæfileikar barna spyrja ekki um stétt eða stöðu eða getu foreldranna til þess að kaupa námsgögn.

Frú forseti. Ég er að hugsa um að hafa þessa ræðu ekki mikið lengri. Ég vildi koma hér upp til að lýsa yfir stuðningi okkar í Vinstri grænum við þetta mál. Kannski kemur ráðherrann í andsvari eða síðari ræðu eitthvað inn á það hvað teljist til námsgagna, annars finnst mér það vera eitthvað sem allsherjar- og menntamálanefnd getur skoðað í sinni vinnu. Ég vil bara að endurtaka að mér finnst mikilvægt að þarna sé horft breitt á hlutina. Að lokum vona ég að við fáum þetta mál aftur sem fyrst hér inn í þingsalinn til þess að samþykkja það.