155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[13:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013 og hér er vísað til þess að öll börn eigi rétt á því að vera bæði með gjaldfrjálsar skólamáltíðir og gjaldfrjálsa skóla yfirhöfuð með sín námsgögn og annað slíkt. Þetta er einhver mantra sem við höfum heyrt hér í dag en hefur því miður ekki raungerst þrátt fyrir að barnasáttmálinn hafi verið lögfestur hér árið 2013. Ég man þá tíð þegar börnin mín voru að alast upp og maðurinn minn lendir í því að handleggsbrotna og var handleggsbrotinn í sex ár vegna læknamistaka, þar sem við glímdum við svo mikla fátækt að það var í raun og veru gleðidagur þegar maður þurfti ekki að hafa áhyggjur af því hvernig maður ætti að hafa mat á diskinn fyrir alla sína litlu munna daginn eftir. Þegar kom að því að skólinn var settur á hverju hausti þá fylltist maður kvíða. Við þurftum kaupa stílabækur, blýant og strokleður og skólatöskur í ákveðnum tilvikum og þetta kostaði mikla fjármuni, mikil útlát. Það er dýrt að vera fátækur. Það er dýrt að þurfa að taka það á Visa rað. Það er dýrt að þurfa að biðja um yfirdrátt þar sem okrið og ógeðið hefur riðið hér röftum eins og allir þekkja og þeir sem eru fátækastir og þurfa að leita á náðir fjármálafyrirtækja til þess að taka lán eða fara á yfirdrátt fá sko að blæða.

Hér er verið að tala um að ég sé að gefa í skyn að það sé ekki eðlilegt að öll börn fái að njóta þess öryggis að vera með skólamáltíðir í skóla sínum. Það var ekki það sem ég sagði. Hingað til hefur verið sendur reikningur á alla foreldra sem hafa viljað reyna koma því þannig fyrir að börn þeirra fengju að njóta skólamáltíða. Hér eftir sem hingað til er stjórnvöldum í lófa lagið að senda sambærilegan reikning vegna skólamáltíða á þá sem þau vita vel að eru stóreignamenn og hafa í rauninni fullar hirslur fjár og greinilega efni á því að gefa börnunum sínum að borða. Ég ætla að segja að það er mér til efs að nokkurt foreldri sem hefur meira en ráð á því myndi hafna því að borga máltíð fyrir börnin sín, enda hef ég hitt allnokkra vel stæða einstaklinga sem segja: Ég kæri mig ekkert um að fá ókeypis skólamáltíðir fyrir börnin mín og láta það bitna á sveitarfélaginu mínu sem er að berjast í bökkum þegar ég hef meira en ráð á því að greiða fyrir það.

Þessari ríkisstjórn hefur í áraraðir fundist það algerlega sjálfsagður hlutur að skerða þá sem minnst mega sín fyrir hverja einustu aukakrónu sem þau reyna að afla sér til að bjarga sér en núna er allt í lagi að skerða ekki þá sem eru efnameiri með því móti að láta þá algerlega að sjálfsögðu greiða fyrir skólamáltíðir barnanna sinna og um leið koma í veg fyrir og létta mjög mikið á erfiðleikum sveitarfélaganna. Svo að það sé algerlega hafið yfir allan vafa þá hefur Flokkur fólksins kallað eftir þeim jöfnuði sem ætti raunverulega að felast í því að börnin okkar sem eiga fátæka foreldra fái að borða í skólunum og þurfi aldrei að leggjast svöng á koddann á kvöldin. Við erum ekki að kalla eftir því að milljarðamæringar séu á framfærslu skattborgaranna að einu eða neinu leyti vegna þess að milljarðamæringarnir geta séð um sig og sína sjálfir.

Og hvað lýtur að námsgögnum og tvöföldun á að koma á námsgögnum þá ætla ég að nefna eitt lítið dæmi um ungan pilt sem er að fara að læra pípulagningar, 16 ára gamall að læra pípulagningar. Nú les hann einhverja indíánasögu og einhverja Sölvasögu unglings og annað slíkt, með fullri virðingu. Alveg frábært, sennilega nýtist það honum mjög vel í öllum hans pípulagningum til framtíðar að hafa lesið einhverjar skáldsögur og Sölvasögu þegar kemur að því að glíma við pípulögnina. Forgangsröðunin í þessu kerfi er einfaldlega galin. Þegar einstaklingur er kominn á þann stað og er orðinn fullorðinn og ætlar að setja sig inn í ákveðna framtíðarsýn og langar til að verða þetta þegar hann verður stór þá á einfaldlega menntakerfið og öll námsgögnin að gefa honum tækifæri á því að sérhæfa sig inn á þá línu í stað þess að láta hann gefast upp af því að hann þarf að taka próf í einhverju sem hann langaði bara aldrei til að gera og á að vera búið að afgreiða í grunnskólanum. En þegar við tölum um námsgögnin og þegar við tölum um grunnskólann þá skulum við ekki gleyma því að til þess að geta nýtt öll þessi námsgögn þá þurfa börnin okkar að geta lesið sér til gagns. Og hversu alvarlegt er að horfa upp á það síðan ég kom á Alþingi Íslendinga fyrir sjö árum síðan hversu hríðversnandi staða barnanna okkar er, bæði efnahagslega og í menntakerfinu, hríðversnandi.

Það eina sem vekur sérstaklega furðu, vegna þess að allt annað kemur ekki á óvart, er hversu frábærlega snemma þetta frumvarp fær að rata hér inn til þingsins. Þetta er í fyrsta skipti í sjö ár sem ráðherra ríkisstjórnarinnar mætir með þingmannamál í september. Til hamingju segi ég nú bara og ekkert annað en það. Ég ætla að vona að við séum að fara að sjá mikið af þessu enda er þetta kosningaveturinn mikli.

Fátækt íslenskra barna hefur vaxið um 44% á síðustu sjö árum. Lesskilningi barna hefur hrakað það gríðarlega að þegar ég er að tala um þetta árið 2016, þegar ég er að að berjast fyrir því að komast á Alþingi Íslendinga til að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda og þurfa á hjálp minni og Flokks fólksins að halda, þá var verið að tala um að um 24% drengjanna okkar væru með lélegan lesskilning eða illa læsir og um 17, 18% stúlkna. Þetta hefur u.þ.b. tvöfaldast á þessum tíma. Vandinn hefur u.þ.b. tvöfaldast á þessum tíma. Hvers lags ábyrgðarleysi er það af ríkisstjórn að láta hlutina fara svona gjörsamlega forgörðum, versna svona dag frá degi, ár frá ári og láta alltaf eins og þetta sé allt að koma? En þetta er jú allt að koma. Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Nei, takk, segir Flokkur fólksins. Það er ekkert að koma. Það er ekki ráðist á garðinn þar sem þarf að gera það, engan veginn. Það er eitt að koma hér með eitthvert fallegt frumvarp og láta það líta út fyrir að vera frábært en það er allt annað að það raungerist í því að nýtast börnunum okkar sem raunverulega þurfa á því að halda að láta taka utan um sig. Við erum að tala um framtíð landsins, við erum að tala um grasrótina okkar, við erum að tala um börnin okkar þar sem helmingur drengja er ólæs og með lélegan lesskilning eftir tíu ára grunnskólanám, helmingurinn. Þetta er fyrirlitlegt. Ég veit að sú þróun sem er að eiga sér stað hér þekkist hvergi á byggðu bóli.

Og að loka augunum fyrir því hversu fátæktin er vaxandi og kjaramálin eru gjörsamleg og kjaragliðnunin er algjör og segja að þetta sé allt í fína lagi, að þetta sé bara allt að koma — hver trúir þessu? A.m.k. ekki íslenskt samfélag, ekki íslensk alþýða og enginn af þeim sem er að glíma við það að geta ekki veitt börnunum sínum þá nauðsynlegu umhyggju og aðhald sem allar þarfir þeirra og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur lofað þeim. Þannig að ég segi ekkert annað en það að betur má ef duga skal. Það er algerlega með ólíkindum hvernig er hægt að réttlæta það að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga fyrr en árið 2029, vegna samtalsins.