149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

loðnubrestur og samningur við Færeyinga.

[14:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Já, það er alveg rétt að þetta mun hafa töluvert mikil áhrif á þau sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur sem tengjast uppsjávarútgerð í landinu, það er óumdeilt, og sömuleiðis á sveitarsjóði og ríkissjóð.

Ég vil undirstrika að aldrei hefur verið lagður meiri kraftur í leit að loðnu en núna. Samtals hefur Hafrannsóknastofnun verið í samstarfi um leit við útgerðir í um 100 daga á sjó. Það gerist á grunni þess að fjárveitingar til hafrannsókna vegna loðnuleitar hafa verið auknar núna í tvö ár. Samkomulagið við Færeyjar er gott og hér er spurt hvort vænta megi meiri samfellu. Já, þetta er tímamótasamkomulag að því leyti að hingað til hafa einungis verið gerðir árssamningar, en nú höfum við gert samkomulag til tveggja ára, sem gerir skipulagningu betri og meiri.

Þegar spurt er hvort einhver tækifæri séu til að bregðast við þessu með einhverjum hætti, með auknum aflaheimildum o.s.frv. þarf að sækja það til einhverra annarra sem hafa lifibrauð af þeim aflaheimildum og færa þær frá einum til annars. Ég kalla eftir hugmyndum hv. þingmannsins og fleiri í því efni ef um það er að ræða. Það eru heimildir fyrir útgerðir og vinnslur til að sækja sér hráefni og annað og ég treysti þeim sem starfa í greininni fyllilega til þess. Þeir hafa sýnt það á undanförnum árum að þeir gera það.

Þegar hv. þingmaður ræðir um hvernig bregðast eigi við í byggðalegu tilliti er nærtækast að ráðherra og ráðuneyti byggðamála ásamt Byggðastofnun leggist yfir þá stöðu sem þarna er að skapast. Það ráðuneyti sem ég veiti forstöðu nú um stundir hefur ekki neitt svigrúm til þess að grípa inn í með þeim hætti sem mér heyrðist hv. þingmaður vera að kalla eftir.