149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[15:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Í svona umræðu er erfitt að svara á tveimur mínútum öllu því sem til manns er beint í öllum ræðum hinna þingmannanna. En til að nefna örfá atriði kom hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson inn á það áðan að samkeppnismál og neytendamál væru ekki undir sama ráðuneyti. Það vill samt þannig til að konan með nafnið og titlana er líka ráðherra samkeppnismála þannig að þau mál eru saman. Neytendamálin hafa verið á miklu flakki á milli ráðuneyta en mér finnst þau eiga heima með samkeppnismálum vegna þess að það er mikil samlegð. Í umhverfi þar sem samkeppni ríkir er alla jafna líka öflug neytendavernd og neytendavitund.

Mér finnst við aðeins vera að ræða tvo hluti, annars vegar neytendavernd og regluverkið og hvað við erum að gera til að bæta þar úr. Neytendavitund okkar mætti hins vegar vera töluvert betri en hún er. Ég held að hún sé töluvert verri en í löndunum í kringum okkur.

Að einhverju leyti helst þetta í hendur en almennir neytendur hér bera mikla ábyrgð, bæði út frá því hvað þeir láta bjóða sér út frá samkeppni, við hvern þeir versla, hvenær þeir kvarta og hvers konar vörur þeir kaupa. Hvort sem það er út frá umhverfismálum eða aðbúnaði fólks höfum við neytendur í hinum vestræna heimi ekkert rosalega góða sögu að segja þegar kemur að því.

Ég vil ekki alhæfa en enn sem komið er er það meira í orði en á borði hjá okkur neytendum. Vonandi er það að breytast og í því felast mikil tækifæri fyrir íslenskt hugverk og íslensk fyrirtæki.

Það eru ítarlegar reglur í lögum um merkingar og annað. Við þurfum að gera miklu betur í því og það sem skiptir öllu máli er að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um hvað það verslar, hvaðan varan kemur og hvernig hún var búin til.

Hér var talað um að ekki væri vilji til að lækka kostnað við fjármálakerfið ef ég skildi hv. þm. Þorstein Víglundsson rétt, en það er einmitt viljinn. Það er hluti af tillögum (Forseti hringir.) í hvítbók og varðandi smálánin vildi ég nefna að það er víst leið til að koma böndum á óréttmæta viðskiptahætti. Um það fjalla tillögurnar og ég hvet þingmenn til að skoða þær vel. Enginn stjórnmálamaður getur samt bannað eða komið í veg fyrir að fólk taki vondar ákvarðanir. Þannig verður það aldrei.