149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við sem erum hérna, þingmennirnir 63, allan daginn að hafa vit fyrir öðrum. Þau rök að hingað komi einhver upp og vilji takmarka aðgengi að einhverju eða breyta einhverju neyslumynstri eða eitthvað — að það sé einhvers konar goðgá eða að við séum að ógna frelsi? Ég skil þær röksemdir yfir höfuð ekki og ég gef mjög lítið fyrir þær, því miður. Ég verð bara að svara því þannig.

En þegar kemur að samanburði á áfengi annars vegar og sykri eða tóbaki hins vegar — ég hef engar tölur en ég held, ég tel að samfélagskostnaðurinn og óhamingjan sem fylgir alkóhóli sé margfalt, tífalt, hundraðfalt alvarlegri en það sem stafar af sykurneyslu eða jafnvel tóbaksreykingum. Þessu er því ekki saman að jafna.