149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega hægt að taka út afmarkaða þætti í einhverju tilteknu samfélagi og halda því fram að tiltekinn afmarkaður þáttur hafi umtalsverð áhrif á hvernig því samfélagi farnist. Þarna verðum við að horfa á heildarsamhengið. Ef við horfum til að mynda á, við skulum segja lífslíkur í samfélögum, þá kemur fram að Ítalir lifa skemur en Spánverjar. Hins vegar vitum við að áfengisneysla í þeim löndum og aðgengi að áfengi er ágætt.

Ef við horfum á aðra þætti, eins og til að mynda ungbarnadauða eða bólusetningartíðni þá er hún óvíða hærri en á Íslandi og ungbarnadauði óvíða lægri. Það er einhvern veginn ekki hægt að taka út áfengið og segja, já það er brennivínið sem breytir öllu.