153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar andsvar. Jú, ég get alveg lýst því yfir að ég er ánægður með þetta kerfi sem fólkinu á undan okkur datt í hug að koma á laggirnar. En þetta kerfi er svo sem ekkert fullþroskað. Ætli það hafi ekki verið 2016 sem það fékkst aukið fjármagn til lífeyrissjóðanna. Áður en það gerist erum við ekki að ná inn í kerfið nema sirka 56% af launum yfir starfsævina, sem ætti þá að telja 40 ár. En með þessari breytingu sem þá var gerð þá á fólk von á því að ná sirka 74–76% á sinni starfsævi og það skiptir auðvitað máli þannig að þeir sem á eftir koma munu njóta þess til framtíðar að við séum með þetta kerfi, sem mér finnst vera af hinu góða, að við séum með þetta söfnunarkerfi en ekki gegnumstreymiskerfi. Það mun valda Evrópu eða þeim löndum sem eru með þetta gegnumstreymiskerfi vanda því að fólki á vinnumarkaði mun fækka þannig að það verða bara færri skattgreiðendur sem sjá fyrir fleiri lífeyrisþegum til framtíðar í Evrópu. Hérna verður sú hætta ekki fyrir hendi af því við bárum gæfu til að fara í þetta söfnunarkerfi.

Það mætti kannski orða það öðruvísi og nota ekki orðið hækja en við tölum samt um gjaldmiðlaáhættu í þessu. Það er greinilegt að lífeyrissjóðir geta með háttalagi sínu haft áhrif á gengi gjaldmiðilsins. Það liggur alveg fyrir. Þetta eru það miklir fjármunir sem lífeyrissjóðirnir hafa úr að spila að þeir geta svo sannarlega haft áhrif á gjaldmiðilinn með fjárfestingum. Ef þeir fjárfesta innan lands eða fara að selja krónur þá fella þeir krónuna. (Forseti hringir.) Ég styð það að sjálfsögðu að lífeyrissjóðir fjárfesti innan lands. Það skiptir máli að lífeyrissjóðir geri það. (Forseti hringir.) Við þurfum lífeyrissjóði kannski í meiri fjárfestingar eða annars konar fjárfestingar, það er ekki nóg að lífeyrissjóðirnir setji peninga inn í Seðlabankann. Vonandi taka þeir þátt í frekari uppbyggingu.