149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvort það er eina skýringin, sem kemur fram í spurningu hv. þingmanns, þ.e. að aðgengið í Danmörku að áfengi sé betra en á Íslandi, en auðvitað freistast maður til að halda það og álykta sem svo. Það er hins vegar mjög mikilvægt, það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi neyslu ungmenna.

Það sem okkur hefur tekist á Íslandi á undanförnum 15–20 árum er að draga jafnt og þétt úr áfengisneyslu ungs fólks og þá sérstaklega fólks á viðkvæmasta aldri, þ.e. á aldrinum 14–20 ára. Það sýnir sig í rannsóknum að sjúkdómar, sem sagt taugasjúkdómar og andlegir sjúkdómar tengdir áfengisneyslu, þ.e. þeir sem byrja að drekka yngstir eru í langmestri hættu á að fá þessa sjúkdóma og hvert einasta ár sem við getum frestað því að fólk hefji neyslu áfengis er afskaplega dýrmætt.