149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrstu spurninguna, sem er gamall kunningi. Ég man að hv. þm. Brynjar Níelsson spurði mig fyrir nokkrum árum, þarþarþarþarsíðast þegar frumvarpið var flutt, (Gripið fram í.) hvort banna ætti bjór. En nú skal ég afhenda hv. þingmanni þetta graf eftir andsvar mitt sem sýnir akkúrat hvað gerðist þegar bjórinn var leyfður. Það er sem sagt hér og neysluaukningin er hér. [Þingmaður bendir á línurit sem hann sýnir þingheimi.] Þetta er svo dagljóst.

Nei, við færum tímann ekki til baka, við gerum það ekki. En eins og ég sagði áðan, við erum búin að gera mistökin einu sinni. Við þurfum ekki að gera þau aftur. Vil ég að vont rauðvín sé selt í ríkinu? Nei, alls ekki. En ég vil heldur ekki að vont kassavín sé selt í Bónus með merki gríssins á, það vil ég ekki heldur. Hér er náttúrlega, eins og hv. þingmaður veit, fullt af fólki sem veit nákvæmlega hvaða rauðvín passar með hvaða mat. En það er hins vegar til í að éta hvaða óhroða sem er með þessu víni sko. Það vill flytja inn alls konar kjötvörur sem eru fullar af sýklalyfjum, en ef hægt er að skola því niður með góðu rauðvíni sleppur þetta fyrir horn að menn telja. Það held ég ekki.

En ég segi aftur: Þessi fjölgun útsölustaða sem blasir við hér mun engu bæta í menninguna. Hún mun engu bæta við. Hún mun bæta við eymdina, eins og ég sagði áðan. Lýðheilsa verður verri. Það er ekki af engu sem þær þjóðir sem ég minntist á áðan, Þjóðverjar, Bretar, Danir, lifa u.þ.b. sex árum styttra en meðal Íslendingurinn, þ.e. meðaltalið í þessum löndum. Af því að okkur er að fara fram í að eldast o.s.frv., hvers vegna þá að gera lífið verra með því að bæta við þessum 20 tegundum af krabbameini og öllu sem þessu fylgir?