149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:06]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lesið skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um þessi mál og það er nú ágætt pólitískt jargon sem þar er farið yfir um hinar ýmsu leiðir sem geti dugað, en þar er ekki hvað síst dregið út mikilvægi verðlagningar og verðstýringar sem við gerum og er áfram lagt til að sé gert.

Hvert er vandamálið? spyr hv. þingmaður. Það kemur ekkert á óvart að flokki hv. þingmanns þykir lítið til viðskipta- og verslunarfrelsis koma, en það þykir mér mjög mikilvægt í þessu samhengi. Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar kemur að stöðu framleiðenda hér heima fyrir, að aðgengi að verslunum er mjög takmarkað út af einokun. Það er bara einn aðili sem velur inn og ég tel einokunarfyrirkomulag ekkert sérstaklega heppilegt fyrirkomulag.

Aðgengismálið, það er einfaldlega staðreyndin — hin empírísku gögn hér styðja ekki þessa staðhæfingu eins og hefur verið undanfarin 10–15 ár. Og hv. þingmaður úti í sal getur hlegið hvað hann vill, en (Forseti hringir.) þetta er bara það sem tölur Hagstofunnar um neyslu á hvern Íslending sýna svart á hvítu, hvort (Forseti hringir.) sem mönnum líkar sá málflutningur betur eða verr.