149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er varla hægt að svara því sem kom hér fram en ég ætla samt að reyna það. Mér fannst dálítið gott þegar hv. þingmaður viðurkenndi að það þyrfti engar breytingar að gera af því að aðgengið væri gott. Það segir mér bara að hv. þingmaður er í sjálfu sér sammála okkur sem tölum gegn þessu. Þannig að hann afhjúpaði sig svolítið með þessari ræðu.

Afleiðingarnar eru ekki endilega sýnilegar í því að menn sláist á skólaböllum. Afleiðingarnar geta líka verið lengri tíma vandamál, ef svo má segja. Hér hafa verið nefndar líkamlegar afleiðingar, skorpulifur, krabbamein o.fl. En drykkja getur líka haft í för með sér ýmsar andlegar afleiðingar og við sem samfélag höfum ekkert verið neitt sérstaklega góð í því að bregðast við þeim.

Hugsanlega, að öllu gamni slepptu, er hægt að ímynda sér að margt það fólk sem hefur villst af leið hafi einmitt orðið fyrir andlegum afleiðingum áfengisneyslu. Það er líka hægt að hugsa sér að svokölluð unglingadrykkja sé minnkandi en ég vil leyfa mér að fullyrða hér að það að ungmenni byrji að drekka áfengi geti oft leitt til frekari neyslu fíkniefna. Ég ætla að láta hér við sitja.