141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki tekið að mér að lýsa stefnu Bjartrar framtíðar í ræðustól Alþingis enda ekki í þeim ágæta flokki og ég tel að forsvarsmenn hans séu fullfærir um að lýsa sinni eigin stefnu hér, og hv. þingmaður verði bara að leita til þeirra um það.

Þegar spurt er um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara eigi í viðræður þá er það út af fyrir sig sérkennileg og sennilega býsna einstök hugmynd sem má vissulega ræða í einhverju samhengi. Það er hins vegar og hefur verið mín afstaða að við þær aðstæður sem Ísland býr, einangrun og ósjálfstæði og miklar efnahagslegar hættur yfirvofandi, sé það skylda þjóðkjörinna fulltrúa þeirrar þjóðar að kanna til þrautar alla þá kosti sem landið á til að brjótast út úr þeirri geigvænlegu stöðu. Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru viðleitni til þess og ég hef því litið svo á að það sé einfaldlega skylda allra ábyrgra stjórnmálamanna, við þær aðstæður sem lýðveldið Ísland býr við í dag, að fara í slíkar viðræður og ljúka þeim og leggja þær síðan fyrir þjóðina. Það er meðal annars á þeim grunni sem ég segi að enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur muni slíta viðræðum við Evrópusambandið að loknum kosningum.