149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[17:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru viðfangsefni þessara umræðna. Skýrslan er býsna dapurleg lesning, ég held að ég verði eiginlega að nota dálítið sterkt orðalag. Það er okkur til mikils vansa hvernig þeim málum hefur verið hagað ef dæma má af skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er giska dapurlegt vegna þess að við erum að tala um einn mikilvægasta atvinnuveg okkar Íslendinga til langs tíma. Þetta er atvinnugrein sem verið er að fjalla eða véla um og byggir á auðlind sem við eigum öll sameiginlega. Þess vegna er dapurlegt til þess að hugsa að stjórnvöldum hafi ekki tekist betur til en raun ber vitni. Það er dapurlegt til þess að vita að við hugsum ekki betur um auðlindina og þá sem hana nýta og höfum ekki með þeim ríkara eftirlit. Það eru forréttindi að fá að nýta þessa auðlind og þau forréttindi þarf að nýta vel og hafa þarf gott og sterkt eftirlit með því að svo sé. Skýrslan ber þess vott að svo er ekki.

Þetta er líka dálítið dapurlegt vegna þess að skýrslan dregur fram að þetta er ástand sem er ekki allt í einu upp komið. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist fyrir hálfu ári eða nokkrum vikum eða mánuðum. Þetta virðist vera búið að vera viðvarandi ástand. Það hlýtur að leiða hugann að því hver ábyrgð þeirra er sem hafa mest vélað um þau mál á síðustu árum eða áratugum. Þá þarf engan sérfræðing til að átta sig á því að þeir sem hafa farið með þau málefni eru fyrst og fremst tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Það finnst mér nokkuð harður áfellisdómur yfir því hvernig þeir ágætu flokkar hafa stýrt þeim málum að við fáum skýrslu af þessu tagi.

Margt í skýrslunni er grafalvarlegt. Nefna má vigtun, brottkast o.s.frv. Mig langar þó að staldra fyrst og fremst við þann þátt sem mér þykir sýnu alvarlegastur sem er að við höfum ákveðið að hafa kerfi sem byggir á því að tilteknir aðilar hafa leyfi til að nýta auðlindina. Þeir hafa til þess aflaheimildir eða kvóta. Það var líka ákveðið þegar þetta stjórnkerfi var sett á að það væri skynsamlegt, rétt og eðlilegt að setja hömlur við því hve mikla hlutdeild í auðlindinni þeir aðilar gætu haft undir. Um það hafa verið settar reglur sem bent er á í skýrslunni að séu gallaðar. Flestir virðast sammála um að þær reglur sem gilda um vensl og tengsl séu stórlega gallaðar. En það er eitt að hafa gallaðar reglur, sem að sjálfsögðu ber að bæta, en hitt er verra að menn hafa ekki haft neina burði til þess að fylgja því þó eftir að þær reglur séu í heiðri hafðar. Mér finnst mjög alvarlegt mál að við skulum vera svona kærulaus við að tryggja að farið sé að reglum um þann auð sem þjóðin á sameiginlega

Ég hlýddi á hæstv. sjávarútvegsráðherra bregðast við skýrslunni og greina frá því sem fram undan væri í þeim málum. Ég er talsmaður þess að menn vandi sig þegar kemur að stórum verkefnum. Mér fannst og finnst ástæða til að nefna að mér finnst að mörgu leyti að ráðherrann sé að bregðast skynsamlega við. Hann kallar fólk til verka. Hann boðar að sett verði fram verkefnaáætlun um það hvernig eigi að takast á við þetta, víðtækt samstarf o.s.frv. Á hinn bóginn má segja að þó séu hlutir hér sem væri hægt að flýta sér aðeins með, þ.e. að menn forgangsraði verkefnunum og ákveði hvað er brýnast. Mér fannst vanta aðeins upp á nægan metnað hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra við að reyna að flýta því verkefni og setja upp skýra forgangsröðun um aðalatriðin í málinu.

Búið er að fjalla mikið um öll þau mál. Það er mikið búið að ræða brottkast og hvernig hægt sé að herða eftirlit þar. Búið er að benda á hvernig hægt sé að herða og bæta eftirlitið með því hverjir eiga kvótann og hvort þeir eru með óbeinum hætti að nýta sér galla í kerfinu til að stækka hlut sinn óeðlilega. Það er svo sem ekki þörf á því að gera ítarlegar kannanir á vandanum. Ég held að vandinn liggi algjörlega ljós fyrir. Þess vegna hefði ég lagt til við hæstv. ráðherra að hann a.m.k. setti því ágæta fólki, hinni fimm manna nefnd, strangari tímamörk og skýrari verklýsingu um hvað eigi að takast á við fyrst.

Auðvitað er gott að hafa samráð og hann lýsti því að settur yrði upp stór samráðshópur með 10–20 aðilum, heyrðist mér hann segja. Það er nú einu sinni þannig að það eru margir hagsmunaaðilar og að sjálfsögðu gott og eðlilegt að eiga samtal við þá en í þessum málum er það líka þannig að hagsmunaaðilar gæta sinna hagsmuna, eðli málsins samkvæmt. Stundum þarf að taka af skarið gagnvart hagsmunaaðilum og stjórnvöld þurfa að tala skýrt og ákveðið vegna þess að svona vinna getur leiðst út í að hægt sé að þvæla málunum fram og til baka. Ef menn ætla að reyna að leysa þetta í allsherjarsátt við alla aðila málsins er ég hræddur um að sú sátt verði torsótt og seinvirk og að sáttin feli í sér á endanum að þeim markmiðum verði ekki náð sem við ætlum okkur, sem er að tryggja að hagsmuna almennings sé gætt í umgengni og nýtingu auðlindarinnar. Við megum ekki gleyma því að um það snýst þetta mál, að auðlindinni sé stýrt og um hana gengið í samræmi við hagsmuni þeirra sem eiga auðlindina og eiga að njóta ávaxtanna af nýtingu hennar. Ég held að þetta sé leiðarljós sem er mjög mikilvægt fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að skýra og hafa efst í huga þegar hann vélar um þau mál.