153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við getum núna loksins greitt atkvæði um þetta mál. Ég hef þá einlægu trú að þetta frumvarp sé mikil og nauðsynleg réttarbót sem þjónar fyrst og fremst því markmiði að verndarkerfið okkar geti starfað samkvæmt upprunalegum tilgangi sínum, svo Ísland geti tekið vel á móti fólki á flótta. Ég ætla að fá að þakka nefndarmönnum og ritara hv. allsherjar- og menntamálanefndar fyrir vel unnin störf. Mig langar líka að þakka sérfræðingum í ráðuneytinu sem hafa verið okkur innan handa og svo öllum þeim góðu gestum sem hafa komið á fundi nefndarinnar, sent okkur umsagnir og við höfum svo sannarlega hlustað.

Útlendingalöggjöf okkar Íslendinga eftir þær breytingar sem eru hér, er góð löggjöf. Hún er mannúðleg, hún er hófsöm og hún verður skilvirkari fyrir vikið. Ég held að við getum gengið sátt frá þessari atkvæðagreiðslu því það er mikilvægt að breyta þessum lögum en Ísland mun hér eftir sem hingað til standa við sínar alþjóðlegu skuldbindingar og taka vel á móti fólki á flótta.