149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[17:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að ræða þetta mál þótt við séum kannski aðeins komin út fyrir efni skýrslunnar.

Ég held að við eigum ekki að útiloka neinar leiðir eins og í tilfelli þessarar stofnunar sem hefur í rauninni margar starfsstöðvar. Fiskistofa hefur starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu og nokkrar úti um landið. Ef ég fer aftur til baka í fyrri spurningu hefði mátt hugsa sér þessa breytingu ganga yfir á lengri tíma með ráðningum á nýjan stað. Ég þekki satt að segja ekki alveg hvernig það var, ekki í smáatriðum, og það kemur ekki þannig lagað fram í skýrslunni.

Tæknin er mjög mikilvæg. Ég held að við höfum líka tækifæri einmitt þegar við deilum út eftirlitsverkefnum til stofnana, eftirlitsverkefnum sem þarf að sinna úti um landið, er ég þá til að mynda að vísa til þess frumvarps sem liggur fyrir um fiskeldi, að við hugum þannig að því að hægt sé að sinna þeim eftirlitsverkefnum frá stofnunum sem nú þegar eru til staðar á viðkomandi landsvæðum, eins og t.d. heilbrigðiseftirlit ef það á við, náttúrustofur þegar það á við, starfsstöðvar Fiskistofu þegar það á við því að stundum setjum við lög óafvitandi sem búa einhvern veginn til óþarfaferðakostnað á tilteknar stofnanir og færa um leið verkefni frá þeim stofnunum sem fyrir eru á landsbyggðinni.

Ég er mikill talsmaður notkunar tækninnar þar fyrir utan. Í ýmsum verkefnum getur tæknin nýst okkur svo miklu betur en hún gerir núna, m.a. í háskólaumhverfinu í báðar áttir þar sem við sækjum þekkingu út á landsbyggðina og miðlum henni til landsbyggðarinnar, í heilbrigðisþjónustunni og (Forseti hringir.) í alls konar þekkingarstarfsemi.