153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Hér erum við komin svolítið langt frá upprunanum. Hvað erum við að reyna að gera í vinnu okkar hér á Alþingi? Hvað erum við að reyna að gera í þessu Lindarhvolsmáli? Við erum að reyna að leiða það fram hvað gerðist þegar eigur almennings voru seldar fyrir hundruð milljarða. Við erum að reyna að leiða það í ljós. Við erum með vinnu frá tveimur ríkisendurskoðendum. Meiri hlutinn vill bara að ræða það á forsendum annarrar skýrslunnar en ekki út frá hinni. Af hverju ætli það sé? Ég kann ekki svarið við því en það er þannig að það hvílir trúnaður á öðru gagninu en hinu ekki. Það liggja fyrir lögfræðiálit um það að Alþingi eigi að birta gögnin og það gildi annað um þetta þegar þetta er komið inn til þingsins með formlegum hætti heldur en ef skjölin væru enn þá hjá Ríkisendurskoðun. Svo er það þannig, þegar menn eru alltaf að tala um að þetta sé vinnuskjal, að það kemur skýrt fram í bréfi sem Sigurður Þórðarson skrifaði Alþingi árið 2018 að hann hafi skilað vinnuskjölunum til Ríkisendurskoðunar. En greinargerðin fór hins vegar til þingsins, Seðlabanka, fjármálaráðuneytisins, og þannig stendur málið. (Forseti hringir.) Við hljótum að tala um þetta út frá öllum þeim gögnum sem fyrir liggja með formlegum hætti frá ríkisendurskoðendunum báðum.