135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:38]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu um það sem hér hefur verið sett fram. Umræðan hefur verið málefnaleg og góð.

Ég vil í lokin, á þeim tveimur mínútum sem ég hef, ítreka það sem stendur í stjórnarsáttmálanum að ráðast skuli í stórátak í samgöngumálum og alveg sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það er sérstaklega tilgreint.

Ég vil líka taka það skýrt fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, og svara þá hv. þm. Jóni Magnússyni — ég sagði það áðan með umhverfismatið að vonandi er það þá þannig að við getum tekið ákvörðun um leið og haustið 2009 geti hafist hönnun og útboð og framkvæmdir. Það eru allir sammála um það, að mér heyrist, og ég er algjörlega sammála því, að þetta er ein mikilvægasta framkvæmdin sem við erum að fjalla um. Hún er jafnframt stærst og þarf mesta fjármagnið. Það verðum við alþingismenn sem þurfum að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að fjármagna þetta verk til enda. Þetta er mikilvægt.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, og hef áður sett það fram, að við erum að setja í gang samráðshóp og hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skipað þrjá sveitarstjóra sína í nefnd. Ég ætla sjálfur að sitja í þeirri nefnd og einnig vegamálastjóri. Við munum fara þar yfir samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og vinna í haginn fyrir breytingar á stuttu samgönguáætluninni sem við þurfum að gera næsta haust. Þá mun ég jafnframt leggja fram löngu áætlunina.

Mér sýnist þetta vera farsæl leið og hugsa til þess þegar við vorum að afgreiða samgönguáætlun í lok síðasta þings rétt fyrir kosningar. Ég held að það sé gott að hefja þessa vinnu sem fyrst og sú er meiningin. Ég óska eftir góðu samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þetta mál. Það er rétt sem hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra sagði: Við þurfum að sameinast um þetta mál. Við höfum 8 milljarða. Ef verkið kostar 35 þurfum við að svara því hvernig við ætlum að fjármagna mismuninn.

Ég ítreka, virðulegi forseti, hér á mínum síðustu sekúndum þakkir fyrir umræðuna. Það er líka fagnaðarefni að algjör samhljómur virðist vera hér um þetta mikilvæga verkefni.