136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að sjá hversu mjög hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kveinkar sér undan því að innt sé eftir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til aðildar að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega staðreynd að íslenskt efnahagslíf þarf á engu öðru meira að halda núna en aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hún yrði til þess fallin að greiða fyrir efnahagslegum stöðugleika. (Gripið fram í.)

Atvinnugreinar eiga í miklum vanda vegna þess að óstöðugleiki gjaldmiðilsins setur þeim miklar skorður. (Gripið fram í.) Við heyrðum síðast í gær um þá aðstöðu sem íslenskir stórkaupmenn eru komnir í sem geta ekki efnt skuldbindingar sínar með fullnægjandi hætti erlendis vegna gjaldeyrisskömmtunar. Við vitum líka að ferðaþjónustan getur ekki verðlagt sig fram í tímann vegna óvissu um gengisþróun. Sú hávaxtastefna sem leiðir af íslensku krónunni fer mjög illa með fyrirtækin í landinu.

Sjálfstæðisflokkurinn, þessi mikli marghöfða þurs, getur enga lausn boðið upp á í þessum málum. Þegar innt er eftir afstöðu flokksins (Gripið fram í.) er slegið úr og í og hv. þingmaður kveinkar sér mjög.

Ég held að það hljóti að vera áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar ekki er hægt að komast að niðurstöðu í þessu máli. Hv. þingmaður, sem er því miður búinn að tala sig kalda í þessari umræðu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur sýnt meiri framsýni en flestir aðrir sjálfstæðismenn í þessu máli. Mér leikur því forvitni á að vita hvort afstaða hennar er einangruð í flokknum eða hvort fleiri sjálfstæðismenn átta sig á mikilvægi þess að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Þetta er ein mikilvægasta aðgerð sem hægt er að ráðast í til þess að endurheimta stöðugleika.

Að koma síðan enn og aftur með það japl, jaml og fuður að frestur sé á illu bestur í þessu máli eins og öllum öðrum undirstrikar bara það vörumerki Sjálfstæðisflokksins að hann kann það eitt að tefja, bíða, drolla og hangsa. (Gripið fram í.)