148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

ávarp forseta danska Þjóðþingsins.

[14:51]
Horfa

Pia Kjærsgaard:

Forseti Íslands, forseti Alþingis, forsætisráðherra, aðrir ráðherrar, alþingismenn, góðir gestir. Til hamingju, Ísland. Mér er sönn ánægja og mikill heiður fyrir hönd danska Þjóðþingsins — og Danmerkur — að fá að færa Íslandi kveðju og öllum sem hér búa.

Þennan dag, 18. júlí, fyrir hundrað árum, náðu sendinefnd Þjóðþingsins og íslenskir alþingismenn samkomulagi sem varð grunnurinn að sambandslögunum sem fólu í sér viðurkenningu á Íslandi sem frjálsu og fullvalda ríki. Lögin gengu í gildi 1. desember 1918. Síðan þá hafa Danmörk og Ísland verið tvö frjáls og fullvalda ríki hvort um sig og verið jafningjar. Danska sendinefndin forðum heimsótti Þingvelli á ferð sinni hingað til lands í júlí 1918. Það er mér sérstök gleði að feta í fótspor nefndarmanna hér í dag, 100 árum síðar.

100 árum síðar er samt margt sem tengir okkur saman. Sameiginleg saga þjóðanna byggist á ríkjasambandi sem stóð í meira en 500 ár. Samhygðin milli Danmerkur og Íslands hvílir á öllu því sem okkur finnst við eiga sameiginlegt, sameiginlegum uppruna og menningararfi, sameiginlegum hugsjónum og sömu lífsgildum.

Nú á dögum lítum við ekki á fullveldi og sjálfstæði Íslands sem skörp skil við fortíðina og við Danmörku. Við erum eftir sem áður í sömu norrænu fjölskyldu. Við eigum náið og gott samstarf í Norðurlandaráði, Norðurskautsráðinu og í NATO. Einnig í NB8-hópnum ásamt vinum okkar í Eystrasaltsríkjunum.

Tungumálið er enn mikilvægur lykill í samskiptum Dana og Íslendinga þó að ég átti mig á því að danska er ekki töluð eða skilin í sama mæli og áður fyrr. Því miður, leyfi ég mér að segja, því að norrænt málsamfélag er enn mikilvæg taug milli þeirra sem búa á Norðurlöndum. Ísland er eina landið fyrir utan danska konungsríkið þar sem danska er skyldunámsgrein í skólum. Mér skilst að enn setjist fleiri Íslendingar að og stundi nám í Danmörku en í nokkru öðru landi. Oft heyrist íslenska töluð þegar gengið er um götur, sérstaklega í Kaupmannahöfn en líka annars staðar í Danmörku. Það er gott, mikilvægt og eðlilegt að Íslendingum finnist þeir vera á heimavelli í Danmörku. Því að þótt Ísland hafi orðið frjálst og fullvalda fyrir réttum hundrað árum eru Danmörk og Ísland tengd sterkum böndum. Og munu ávallt verða það.

Er ríkjasamband okkar var við lýði þótti Dönum Ísland vera það land þar sem hin upphaflega sjálfsmynd norrænna manna var varðveitt. Á 19. öld átti Ísland þátt í að kynda undir danskri þjóðerniskennd sem þá var í blóma. Litið var á Ísland sem vöggu norrænnar menningar. Þegar við Danir komum til Íslands finnum við fyrir land sem skipar sérstakan sess hjá dönsku þjóðinni. Hér sjáum við rætur okkar. Á sama hátt geta Íslendingar sagt að þróun nútímasamfélags á Íslandi eigi sér mjög sterkar rætur í Danmörku. Það á við um menningarmál, vísindastarf, alþýðuhreyfingar, lýðháskóla og norrænt velferðarsamfélag.

Ísland er öflug fyrirmynd í baráttu nýrra smáríkja fyrir sjálfstæði, lýðræði og mannréttindum. Saga og menning tengir okkur ekki aðeins saman heldur einnig hugsjónir og hagsmunir á norrænum vettvangi, í Evrópusamstarfi og hjá alþjóðastofnunum.

Í aldanna rás hefur mikið mætt á íslenskum almenningi. Harðneskjulegt veðurfar, eldgos og jarðhræringar, óvægin náttúruöfl sem við mannfólkið höfum enga stjórn á. Einnig atburðir af manna völdum eins og bankahrun og efnahagskreppa sem ógna velsæld og öryggi manna. Fögur, ótamin og ólm náttúra Íslands hefur ætíð heillað okkur Dani sem eigum uppruna okkar í landi sem liðast um laut og dal við salta og austlæga strönd. Náttúran á Íslandi hefur getið af sér vel þekktar þjóðsögur um tröll sem leita skjóls undan sólarbirtu í dimmum hellum og skúmaskotum. Hér á Þingvöllum er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig hraunið verður að tröllum í rökkrinu og til verða þjóðsögur og ævintýri um dularfullar verur.

Þúsundir Dana sækja Ísland heim á hverju ári og snúa aftur með minningar sem þeir geyma alla ævi. Ein ástæðan er sú að okkur Dönum finnst við ekki vera útlendingar þegar við komum hingað því að á einhvern hátt finnst okkur sem við séum staddir í landi sem við höfum alltaf þekkt. Kynslóð eftir kynslóð hafa Íslendingar og Danir átt viðskipti, stofnað til hjónabanda og myndað tengsl sín á milli — og einnig norður um höf, til Færeyja og Grænlands. Það sem einkennir ykkur er hversu nátengd þið eruð hafinu. Það þekkjum við einnig í Danmörku.

Vegna alls þessa hefur okkur Dönum aldrei staðið á sama um Ísland og svo mun aldrei verða. Danmörk og Ísland tengjast nánum vináttuböndum í norrænu bræðralagi.

Hjartanlega til hamingju, Ísland.