Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

Samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn.

[17:06]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við höfum öll orðið vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðasta árið hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér, en þó sjáum við íbúa óttaslegna við þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi.

Með stöðugri þróun glæpasamtaka hefur reynst sífellt erfiðara að eiga við þau og stöðva uppsveiflu þeirra hérlendis. Það er öllum ljóst að styðja þarf við löggæsluna í sínum viðbrögðum í takt við nýjan veruleika til þess að halda uppi reglu og tryggja öryggi og viðunandi starfsaðstæður lögreglu. Allir fasar löggæslunnar eru komnir að þolmörkum og þegar við ræðum þessi mál verðum við að taka umræðuna út frá starfsöryggi og viðbragðsgetu lögreglumanna, sem leggja líf sitt að veði hvern einasta dag til að tryggja öryggi og til að halda uppi lögum og reglu hér á landi.

Ein birtingarmynd þeirrar áhættu sem fylgir lögreglustarfinu er slysatíðni lögreglumanna en tölulegar staðreyndir sýna að lögreglumenn er sú stétt sem verður fyrir flestum vinnuslysum á ársgrundvelli. Frá árinu 2016–2020 voru 140 vinnuslys tilkynnt. Lögreglan hefur lengi kallað eftir auknum rannsóknarheimildum og rafvarnarbúnaði. Það lýtur að takmörkuðu öryggi, hærri slysatíðni og auknu álagi á lögreglu með auknum vopnaburði í samfélaginu og aukinni hörku í ofbeldisbrotum. Rafvarnarvopn auka á öryggi lögreglumanna og almennings, í Bretlandi t.d. fækkaði slysum á lögreglumönnum eftir að lögreglan fékk rafvarnarvopn sem hluta af sínum búnaði og sama er að segja af þeim norrænu ríkjum sem hafa tekið slíkan búnað í notkun. Lögreglu gefst þar tækifæri til að yfirbuga hættulega einstaklinga úr meiri fjarlægð og draga þannig úr líkamlegum átökum. Flest slysin verða jú við valdbeitingu lögreglu við handtökur og það hefur sýnt sig að í yfirgnæfandi meiri hluta dugar að gera einstaklingi viðvart um yfirvofandi beitingu rafvarnarvopna verði ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Rafvarnarvopn er millistig í valdbeitingu og miðar að því að bregðast skjótar við árásum, t.d. með hnífum sem hefur verið mikið um hérlendis á undanförnum mánuðum. Þetta er þá spurning um hvort lögregla hafi rafvarnarvopn eða hvort hún þurfi hreinlega að vopnast skotvopnum til að takast á við slíkar árásir þegar þær eru í gangi. Hér er svo sannarlega um vægara viðbragð að ræða.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að við tryggjum lögreglu viðunandi starfsaðstæður og tryggjum eftir fremsta megni öryggi hennar í starfi í þágu almennings. Þetta er liður í því. Gagnrýna má framkvæmd reglugerðarbreytingarinnar og bæta má hvernig við förum inn í svona mál. Gleymum þó ekki hvert tilefnið er og hvers vegna þetta er mikilvægt. Þetta er lögreglumönnum og almenningi til mikilla öryggisbóta, en þeir sinna hættulegu starfi á hverjum degi. Við treystum á lögregluna þegar eitthvað kemur upp á og hún þarf líka að geta stólað á okkur, að við hlustum á ákall hennar og bregðumst við í samræmi við það. Notkun vopna, hvort sem það eru rafvarnarvopn eða önnur, krefst vandaðrar þjálfunar, fræðslu um afleiðingar og hvernig og við hvaða aðstæður skuli beita rafvarnarvopnum við störf lögreglu. Þess vegna þurfa verklagsreglur ríkislögreglustjóra að vera skýrar og þjóna þeim tilgangi sem þeim er ætlað og einnig þarf þjálfunin að vera góð en fræðslan líka.

Virðulegi forseti. Þó svo að ég gagnrýni hvernig þessi breyting kom til og kalli eftir betri upplýsingagjöf og samráði við ráðherra um slík mál, þá fagna ég því að við séum að stíga þetta skref með það að leiðarljósi að tryggja öryggi lögreglumanna við störf sem og öryggi almennings.