Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

hafrannsóknir og nýting sjávarauðlindarinnar.

[15:52]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Hér er vitnað í vísindin og ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að vísindin snúast um gagnrýna hugsun. Það er ekki vísindalegt að setja menn í að leiða starf sem sannarlega hafa haft rangt fyrir sér. Þeir spáðu liðlega 300.000 tonna ársafla á hverju ári en niðurstaðan er allt önnur. Þeir sem leiða þetta starf hafa sett til hliðar líffræðilega gagnrýni á störf þeirra. Það bara liggur fyrir að það var samin skýrsla sem benti á að það sem búið er að reyna hér síðustu áratugina gæti ekki gengið upp og raunin er sú. Að halda það, eins og fram kemur í máli hæstv. ráðherra, að það búi einhver vísindi í einhverjum stofnunum — það er ekki þannig. Það á að vera samtal og ég fagna því en það á ekki að vera þannig að þeir sem hafa sannarlega haft rangt fyrir sér geti ýtt öðrum skoðunum (Forseti hringir.) algerlega út af borðinu. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra opni aðeins augun (Forseti hringir.) og sjái að það eru mikil tækifæri í að taka þessa vinnu og byrja upp á nýtt, taka þau gögn (Forseti hringir.) sem liggja fyrir hendi alveg frá grunni.