133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

náttúruvernd.

639. mál
[23:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér eru í raun og veru tvö frumvörp í einu. Annars vegar frumvarp um betri lagaumbúnað um steindir í náttúruverndarlögunum og hins vegar um rétt almennings eða almannasamtaka í tengslum við náttúruverndarlögin. Ég skal hafa mjög stutt mál um hinn fyrri hluta sem ég fagna að sjá hér í frumvarpsformi og tel að ekki muni standa á neinum að samþykkja, einkum í ljósi nýliðinna atburða sem ég ætla ekki að fara nánar ofan í nema með þeim hætti að okkur er skylt að tryggja að þeir endurtaki sig ekki. Að ekki verði sótt sjaldgæft og verðmætt grjót af fjöllum ofan til þess að skreyta húsakynni og byggingar þótt svo hafi verið gert áður enda aðrar leiðir til þess nú á tímum.

Um hinn þátt frumvarpsins er ég ekki alveg sammála síðasta hv. ræðumanni. Ég held að þótt mörg viljum við gjarnan að einstaklingar hafi kærurétt, þá leiði það ekki beint af Árósasamningnum, væri hann í gildi, en ég er reiðubúinn til að breyta um afstöðu í þessu ef mér er sýnt fram á að þetta hald mitt sé ekki rétt.

Það vekur hins vegar athygli að hvergi er minnst á Árósasamninginn í greinargerðinni með frumvarpinu. Í greinargerðinni er látið eins og hann sé ekki til þótt íslensk stjórnvöld hafi skrifað undir hann á sínum tíma. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti honum.) Fyrrverandi utanríkisráðherra, þá flokksformaður í þeim flokki sem núverandi hæstv. umhverfisráðherra heyrir til, flutti hér staðfestingarfrumvarp á sínum tíma í tíð núverandi ríkisstjórnar sem síðan hlaut sorglegan endi og hefur aldrei komið fram aftur. Annars vegar af tæknilegum ástæðum vissulega, og hins vegar vegna andstöðu samstarfsflokksins, Sjálfstæðisflokksins, og væntanlega líka hagsmunaaðila innanlands.

Þess vegna verður greinargerðin óneitanlega svolítið skrýtin því þar er m.a. sagt að ákvæðið um að umhverfis- og útivistarsamtök skuli njóta sama réttar og þeir sem eiga hina svokölluðu lögvörðu hagsmuni, að það sé samið með hliðsjón af 19. gr. frumvarps til laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

En svo vill til að ég hef skoðað frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð og þar er ekkert minnst á útivistarsamtök eða rétt þeirra í þjóðgarðinum eða nokkurs staðar annars staðar. Það er yfir höfuð ekki minnst á útivistarsamtök. Það er ákaflega lítið fjallað um rétt annarra en þeirra sem búa í sveitarfélögunum umhverfis jökulinn til að ráðskast og regera með það land sem þar er uppi.

Ég furða mig svolítið á þessu en ég kann líka að taka ábendingum. Ábendingin í athugasemdinni um 5. gr. í frumvarpinu er auðvitað til okkar umhverfisnefndarmanna, til að tryggja rétt útivistarsamtaka mjög kirfilega í því frumvarpi sem hæstv. umhverfisráðherra hefur nú lagt með nokkrum hætti inn til umhverfisnefndar.

Ég vil túlka þetta aðeins djarfar, ég vil túlka þetta þannig að þessi óþarfa en merkilega tilvísun til frumvarpsins um Vatnajökulsþjóðgarð hafi þá merkingu að umhverfisráðherra sé í hjarta sínu sé ósáttur við þá meðferð sem þar er veitt almannahagsmunum öðrum en þeim sem hinir svokölluðu heimamenn knúðu fram í sérstakri skýrslu og hafa verið með nokkuð djarflegar yfirlýsingar um síðan, þ.e. að umhverfisráðherra sé með þessum nánast ljóðræna hætti að segja okkur í umhverfisnefndinni að við eigum að taka mark á hagsmunum umhverfisverndarsinna og útivistarfólks, þ.e. víðtækum almannahagsmunum, þó að sá almenningur sé ekki endilega búsettur á þeim svæðum sem snerta friðlandið.

Ég skal segja það almennt að hvað sem Árósasamningnum líður þá tel ég að a.m.k. í þjóðgörðum eða friðlandi og á þjóðlendum á Íslandi, þar sem við erum ekki nema 300 þúsund manns enn, þá eigi einstaklingar að geta átt rétt sjálfir og þurfi ekki að klæða sig í hjúp einhverra samtaka til þess að leggja fram kærur og skipta sér af stjórnsýslu og ákvörðunum í umhverfismálum.

Ég hef áður sagt það úr þessum stól og á nefndarfundum að saga okkar síðustu ár er full af dæmum um djarfhuga og réttsýna einstaklinga sem með góðu framtaki sínu hafa jafnvel bylt hér heilum lagakerfum og leitt til framfara fyrir þjóðina. „Nú rís sú öld sem einliðann virðir“, var ort hér fyrir svo sem einni öld, og ég held að við sem ekki höfum týnt okkur í einherjafylliríi sjálfstæðismanna, við eigum að taka mark á þeim frelsisboðskap sem Einar Benediktsson flutti hér fram um leið og hann lagði áherslu á rétt alþýðunnar og á það að velta í rústir og byggja á ný. Ég sé að alþingismenn fylgjast agndofa með þessari ræðu og ég þakka þeim fyrir athyglina sem hún vekur hér.

Þrátt fyrir þessa hugleiðingu mína og álit mitt og ýmissa annarra sem einkum kom fram í deilunni um þetta í langdreginni meðferð okkar hér á þinginu í endurskoðun laganna um mat á umhverfisáhrifum, þá vil ég nú samt óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með að hafa sett þetta hér inn í þetta góða frumvarp. Vegna þess að með því er hún auðvitað að uppfylla ákvæði þeirra samninga sem við enn höfum ekki staðfest, þ.e. Árósasamningsins.

Til þess að menn haldi ekki að þetta sé eitthvert bull í mér þá er ég hér með þetta mikla plagg sem ég spurði hæstv. umhverfisráðherra um á dögunum og heitir, með leyfi forseta:

„Árósasamningurinn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Greining á íslenskri löggjöf með hliðsjón af ákvæðum Árósasamningsins. Niðurstaða nefndar.“

Þessi niðurstaða er gefin út í umhverfisráðuneytinu 28. september 2006 og ég er örugglega fyrsti maðurinn sem prentar hana út af vef umhverfisráðuneytisins. En þar er einmitt fjallað um þá löggjöf sem þarf að breyta í framhaldi af Árósasamningnum. Þar eru einmitt nefndar einna fyrstar í umfjölluninni tvær greinar náttúruverndarlaganna um löggjöf á sviði umhverfisráðuneytisins. Þar er talað um 38., 41. og 47. gr.

Og nú er bara að vígbúast og halda áfram þessu ferli, forseti, fyrir hæstv. umhverfisráðherra, og ég vænti þess að við sjáum hér sams konar endurskoðun á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Á lögunum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Á lögunum um meðhöndlun úrgangs. Á lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á lögunum um vernd Breiðafjarðar. Á lögunum um matvæli. Á lögunum um dýravernd. Á lögunum um eiturefni og hættuleg efni og lögunum um erfðabreyttar lífverur.

Í niðurstöðu nefndarinnar, sem í sátu greinilega mjög fínir fagmenn undir stjórn eins af hinum ágætu starfsmönnum í umhverfisráðuneytinu, en þar er meira mannval en í flestum öðrum ráðuneytum (Gripið fram í: Þar eru víst betri fyrrverandi ráðherrar líka.) enda verið þar mjög merkir ráðherrar á ferð fyrr og nú, en þar er alls staðar spurt: Eru ákvæði 9. gr. Árósasamningsins, sem fjallar um aðgang almennings að réttlátri málsmeðferð, uppfyllt? Svarið við því er nei við lok allra þessara laga.

Ég sé að hæstv. umhverfisráðherra hefur tekið eftir þessu og er nú byrjuð að stíga þau skref að innfæra Árósasamninginn í löggjöfina sem undir hana heyrir. Ég óska henni til hamingju með það og ég hvet aðra ráðherra til að gera slíkt hið sama.