143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef augljóslega ekki talað nógu skýrt, hvorki í ræðunni sem ég veit að hv. þingmaður hefur hlustað á né í andsvarinu. Ég var ekki að segja að reikningurinn til skattgreiðenda hefði komið frá stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Ég fór yfir það í ræðu minni hver ég tel mistökin hafa verið.

Við á hv. Alþingi setjum lögin, við komum upp eftirlitskerfinu og við eigum að fylgjast með þessum þáttum. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni í því að menn eiga að njóta sannmælis. Ef eitthvað hefur farið miður í Íbúðalánasjóði held ég að við náum samt sem áður aldrei að finna þann einstakling eða einstaklinga sem við getum skellt skuldinni á. Það var að mínu áliti augljóst að grunnurinn á bak við húsnæðisstefnuna gat ekki annað en leitt til einhverra áfalla. Hversu stór þau yrðu er misjafnt, þetta hefur líka gerst á Norðurlöndunum og í öðrum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þau lærðu af þessu. Nú er spurning hvort við gerum það.

Ég er ekki hingað kominn til að benda á fólk, þetta snýst ekki um það og alls ekki þegar kemur að skýrslu sem þessari. Þess vegna tók ég sérstaklega undir með hv. þingmanni um að andmælarétturinn er alveg gríðarlega mikilvægur. Ef skýrsla er gerð og það kemur út að ekkert fyrirsagnamál sé í henni, það sé ekki hægt að taka einn einstakling og rassskella hann í fjölmiðlum, er það ekkert slæmt. Markmiðið með rannsóknum er ekki að finna einhverja sem hægt er að kenna um alla hluti. Markmiðið með rannsókninni er að finna hvað þarna var í gangi og hvað við getum lært af þessum hlutum. Ég vona að framtíðarrannsóknir, því að rannsóknir eru nauðsynlegar, verði þannig.