Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

tillaga til þingsályktunar um vistmorð.

192. mál
[17:50]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að gæta að vernd búsvæða almennt í lífríkinu og ég ætla ekki að draga úr því. En ég held samt sem áður að við verðum að forðast þessa heimsendaumræðu sem fer af stað sífellt þegar verið er að ræða um umhverfismálin. Það hefur nefnilega náðst gríðarlegur ávinningur í umhverfismálum. Þrávirk efni hafa minnkað, náðst hefur olíusparnaður, vistvænir orkugjafar eru í ríkari mæli og svo má lengi telja þannig að það er margt jákvætt að gerast. Mér finnst stundum eins og það sé varpað of neikvæðu ljósi á umhverfismálin. Það eru tækifæri til að gera betur og við höfum gert vel og við eigum kannski að forðast þessa, ég vil segja gildishlöðnu umræðu um að allt sé að fara til fjandans. Það er ekki alveg svo, það er margt jákvætt að gerast í þessum málum. Ég held að við verðum að halda því á lofti og vera ekki að hræða ungmenni að óþörfu um að framtíðin sé bara ekki til.