154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

breytingar á lögum um útlendinga.

[15:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Auðvitað hefur hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins engar áhyggjur af VG. Þeir hafa ekki haft þær til þessa og þess vegna gengur VG á lagið í hvert einasta sinn og kemst upp með það í hvert einasta sinn, vegna þess að stutta svarið hérna áðan var: Já, við munum bara láta undan þeim áfram í þessum málaflokki. Kannski er það bara í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins eins og hún var samþykkt með herkjum á síðasta landsfundi flokksins. En talandi um samráð og að ég sé á einhvern hátt að gagnrýna þetta stórkostlega samráð sem hér átti sér stað til að mynda útlendingastefnuna: Já, það má alveg segja það, þótt ég hafi ekki beinlínis sagt það, en ég get sannarlega gagnrýnt hvernig staðið var að því. Það var með nákvæmlega sama hætti sem útlendingalögin sem allur vandinn byggist á urðu til, þegar þáverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins útvistaði verkefninu í eitthvert allsherjarsamráð sem út úr kom eintóm della. En hafandi fengið svar við fyrri spurningunni þá spyr ég núna eina ferðina enn, herra forseti: Til hvaða öryggisráðstafana hefur verið gripið til vegna innflutnings ríkisstjórnarinnar á hælisleitendum frá Gaza?