133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

brunavarnir.

663. mál
[01:00]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir 663. máli á þskj. 1005. Það tengist seinustu tveimur málum varðandi mannvirkin og skipulagið. Í frumvarpinu, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum um brunavarnir vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á löggjöf um byggingarmálefni í frumvarpi til laga um mannvirki. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem komnar eru til vegna eldsvoða á athafnasvæði Hringrásar í Reykjavík í nóvember 2004 og úttektar Brunamálastofnunar í kjölfarið á ástæðum eldsvoðans. Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra sex ára sem lögin hafa verið í gildi.

Í frumvarpi til laga um mannvirki eru, eins og ég hef þegar lýst í þeirri framsögu, lagðar til margháttaðar breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Er lagt til að hin nýja stofnun, Byggingarstofnun, taki við því hlutverki sem Brunamálastofnun hefur sinnt á grundvelli laga um brunavarnir. Í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að öll ákvæði sem verið hafa í lögum um brunavarnir, um hlutverk Brunamálastofnunar, færist undir lög um mannvirki og undir Byggingarstofnun. Enn fremur er lagt til að brunamálaráð verði lagt niður en í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að Byggingarstofnun leiti í störfum sínum samráðs við hina ýmsu hagsmunaaðila, þar með talið Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fagráð starfi að baki stofnuninni heldur leiti stofnunin þeirrar ráðgjafar sem hún þarfnast hverju sinni eftir aðstæðum. Útvíkkun á hlutverki stofnunarinnar kallar á samráð við mun fleiri aðila en þá sem setið hafa í brunamálaráði. Eðlilegt er að stofnunin skipuleggi sjálf einhvers konar samráðsvettvang, mismunandi eftir málefnum og málaflokkum sem undir stofnunina heyra, en ekki er talin þörf á að binda slíkt samráð eða fyrirkomulag í lög umfram það sem gert er í frumvarpi til laga um mannvirki.

Auk þess er lagt til að skólaráð Brunamálaskólans verði lagt niður í núverandi mynd en í stað þess verði skipað sérstakt fagráð sem hafi það hlutverk að vera Byggingarstofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar tilnefni í fagráð Brunamálaskólans og skólaráð, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna auk þess sem formaður er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Þá er gert ráð fyrir að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög að mestu óbreytt fyrir utan þær breytingar á yfirstjórn málaflokksins sem hér eru raktar enda hafa þau í aðalatriðum reynst vel frá því að þau voru sett árið 2000.

Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kom upp í miklu magni af hjólbörðum sem geymdir voru á lóð fyrirtækisins. Í kjölfar brunans óskaði þáverandi ráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði Brunamálastofnun ýmsar tillögur til úrbóta, m.a. á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtækju sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar og er lögð til lítils háttar breyting á lögunum til að undirstrika það.

Aðrar breytingar sem eru lagðar til eru m.a. þær að ákvæðum um slysatryggingu slökkviliðsmanna verði breytt og kveðið á um að þeir skuli njóta sambærilegs réttar til bóta og aðrar starfsstéttir sem sinna hættulegum störfum, svo sem lögreglumenn og sjómenn. Enn fremur er lagt til að slökkviliðsstjóri taki ákvörðun um álagningu dagsekta til að knýja á um úrbætur í brunavörnum í stað sveitarstjórna áður.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til, eins og með hin frumvörpin tvö, að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.