149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Jú, það er svo sannarlega mikið að marka þessa fjármálaáætlun. Þetta er hins vegar fjármálaáætlun til fimm ára og við lifum í hagkerfi sem bæði er sveiflukennt og getur verið viðkvæmt fyrir einstökum utanaðkomandi þáttum. Þegar vinna var í gangi við fjármálaáætlunina stóðu vonir til þess að menn myndu finna loðnu. Hún fannst ekki. Það er tap í þjóðarbúinu upp á einhverja 20–25 milljarða. Í sumum sveitarfélögum er áfallið umtalsvert.

Við erum enn að fljúga óvissutíma í sambandi við ferðaþjónustuna og flugið. Kjarasamningar liggja ekki fyrir. Allt þetta er nefnt sem óvissuþættir í fjármálaáætluninni og m.a. þess vegna höfum við sett meiri fjármuni til hliðar í varasjóði, til þess að geta tekist á við þá.

Svo að ég vitni til umræðunnar við fjármálaráðherra í dag er það sannarlega þannig að við erum að skila 28 milljörðum í afgang og inni í varasjóði fyrir næsta ár eru í rauninni 13 milljarðar til viðbótar, sem er um 3 meira en lögboðið er. Við erum því sannarlega búin undir þetta.

Ef hagsveiflan fer niður mun það auðvitað líka koma niður á sveitarfélögunum. Jöfnunarsjóðurinn hefur vaxið umtalsvert á liðnum árum. Frystingin er upp á 1.185 milljónir á ári og safnast upp til tveggja ára en síðan ekki meir.

En eins og ég sagði erum við að hefja viðræður við sveitarfélögin um hugsanlegar aðrar leiðir eða aðra aðkomu að því eða hvernig þeim þáttum getur verið komið fyrir í meiri sátt af hálfu þeirra. Það liggur fyrir að verði einhver slík leið farin, eins og er nefnt í þessari fjármálaáætlun, munu verða gerðar lagabreytingar, þannig að allt það sem hv. þingmaður kom fram með og sagði að yrði sérstakur niðurskurður á Vestfjörðum eða Norðvesturlandi eða vegna málefna (Forseti hringir.) fatlaðra er vitleysa. Við munum fara yfir það og ekki láta það bitna með núverandi regluverki á viðkvæmum málaflokkum. Það liggur ljóst fyrir.