Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[14:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú að hvíla þingheim á því að ég tæki til máls þegar til umræðu kæmi Vestnorræna ráðið eða Færeyjar eða Grænland vegna þess að síðan ég hóf störf á þingi hef ég setið í Vestnorræna ráðinu, fram til síðustu kosninga, og hef ávallt tekið til máls þegar verið er að ræða þessi mikilvægu mál. Þegar umræðan fór að spretta upp hér áðan, um hvort ekki væri hægt að horfa til þeirrar fyrirmyndar sem hefði verið í Vestnorræna ráðinu, þá gat ég ekki setið á mér og ákvað að hlaupa af skrifstofunni minni og koma og taka þátt í þessari umræðu.

Mig langar samt að byrja á því að óska nýrri Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins til hamingju og óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að þetta er bæði skemmtilegt en líka mjög gagnlegt. Ég tek undir það sem hefur verið sagt hérna að það eru mjög mikil tækifæri í auknu samstarfi vestnorrænu landanna. Þá langar mig að segja að það hefur oft verið talað um það að við séum jú vissulega stóri bróðir, eins og nefnt hefur verið, í því ljósi að við erum fjölmennust. En það er líka rosalega mikilvægt að muna í öllu þessu samstarfi að við erum þarna á jafningjagrunni. Þó að hinar þjóðirnar séu ekki með fullt sjálfstæði þá hafa þær sjálfstæði í stórum og veigamiklum málaflokki og ég held að ástæðan fyrir því að þetta samstarf hefur verið svo farsælt sé sú að við erum öll að læra hvert af öðru og það hafa allir eitthvað mikilvægt fram að færa í samstarfinu.

Að því sögðu þá er það nú svo að á síðustu árum hefur verið horft mikið til samstarfs við Færeyjar og Grænland og mig langar að minnast á skýrslu sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra lét vinna. Það var annars vegar stór og mikil skýrsla með mörgum tillögum sem var unnin um samstarf við Grænland. Það var vinna sem fyrrverandi hæstv. ráðherra og þingmaður, Össur Skarphéðinsson, leiddi og það var mikið af áhugaverðum punktum þar og tækifærum sem ég vona svo sannarlega að sé verið að vinna áfram með víða í stjórnsýslunni því að þetta voru athugasemdir eða ábendingar um svo margt sem væri hægt að gera enn betur í því að auka samstarfið. Það hefur líka verið unnin skýrsla um Færeyjar. Hún fékk kannski aðeins minni athygli af því að hún kom út um svipað leyti og við vorum að hefja kosningabaráttu. En það eru líka tækifæri þar. Ég fagnaði mjög þessu framtaki hjá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og ég tel það mikilvægt. Ég held að það sé mikilvægt að stjórnsýslan okkar sé svolítið, ef ég orða það þannig, stíluð inn á það að horfa líka til þessara nágrannalanda okkar.

En hvað þessar ágætu tillögur varðar þá langar mig bara að styðja þær, enda sat ég í Vestnorræna ráðinu og samþykkti þessar tillögur á ársfundi Vestnorræna ráðsins síðast. Ég held að ég muni það örugglega rétt að tillagan er lýtur að samstarfi menntamálaráðherranna hafi verið tillaga Íslandsdeildarinnar. Og af því að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi hér áðan Háskólann á Akureyri þá get ég alveg sagt að það var það sem við vorum svolítið að hugsa. Sú hugmynd kemur ekki síst eftir það að ég hafði verið í heimsókn á Grænlandi og eftir einhverja fundi fórum við í fyrirtækjaheimsóknir, mig minnir að þetta hafi verið í Sisimiut, og við fórum m.a. í skóla sem var framhaldsskóli og svona háskólabrú. Þar var verið að kenna einhvers konar sjávarútvegsfræði og viðmælandi okkar var danskur kennari frá dönskum háskóla. Ég hugsaði: Já, af hverju er ekki Háskólinn á Akureyri í samstarfi hér með sína sjávarútvegsfræði? En þannig er auðvitað mjög víða staðan á Grænlandi, tengsl þeirra við Danmörku eru mjög sterk og mjög mikil. Hluti af þessari ályktun er einmitt til að ýta undir það að við byggjum upp frekara samstarf. Ég ræddi þetta við rektor Háskólans á Akureyri sem hafði mjög mikinn áhuga á því að efla samstarfið. En það sem kannski flækir þetta auðvitað svolítið er sjálfstæði háskóla á Íslandi. Við sem þingmenn komum ekki inn og segjum: Heyrðu, nú eigið þið að gera þetta og þetta. Það er hluti af okkar kerfi og það eru þau svör sem við höfum fengið frá ráðherranum þegar hafa verið til umræðu ályktanir í líkingu við þessar. Þess vegna er verið að leggja hérna til að setja þetta í rauninni á dagskrá í samstarfssamningi sem er til staðar milli menntamálaráðherra þessara landa. Þannig væri mögulega hægt að ýta undir eða hvetja til einhvers samstarfs. Auðvitað er líka hægt að sjá fyrir sér að ráðherrarnir hreinlega setji fjármuni í eitthvert afmarkað verkefni sem geti svo mögulega leitt af sér eitthvað til framtíðar.

Þá komum við að hinni ályktuninni sem varðar okkar stærsta mál, auðvitað umhverfismálin. Ef fólk les í gegnum fyrri ályktanir Vestnorræna ráðsins þá má sjá að umhverfismálin eru alveg ofboðslega stór málaflokkur. Við höfum verið með mál varðandi plastmengun, loftslagsmál í stóra samhenginu, áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og það er hægt að telja upp allmargar tillögur. Mig langar líka að benda núverandi Íslandsdeild á það að í gegnum tíðina þá er verklagið þannig að það eru samþykktar ályktanir á ársfundi ráðsins. Öllum landsdeildum ber að leggja það fram sem þingsályktunartillögu í sínum þingum þannig að það fer í gegnum þetta ferli sem við erum að gera hér. Fyrir næsta ársfund hefur verið kallað eftir skýrslum frá framkvæmdarvaldinu. Það hefur verið mjög áhugaverð lesning sem maður hefur fengið frá ráðuneytunum um ákveðnar tillögur sem við höfum með. Ég segi áhugaverð að því leyti að þar kemur í ljós, eins og stundum vill verða með þingsályktanir, óháð því hvort þær tengist Vestnorræna ráðinu eða einhverju allt öðru, að þær gleymast, skolast til og ráðherra lítur ekki endilega á það þannig að hann sé skuldbundinn til að fylgja einhverju slíku eftir. En í þessum skýrslum er líka að finna alveg ofboðslega áhugaverðar upplýsingar um það sem verið er að gera í ákveðnum málaflokkum. Mig langar sérstaklega að nefna hvað það var áhugavert að lesa greinargerð íslenska umhverfisráðuneytisins varðandi plastmengun í hafi og hvað það var unnin rosalega mikil vinna þar og líka í Grænlandi. Það var mjög fróðlegt og ég er alveg viss um að í þessum skýrslum koma oft hugmyndir og tækifæri fyrir þingmenn til að þróa áfram frekara samtal og samstarf um þessa málaflokka.

Að þessu sögðu þá heyrði ég hér að þingmenn voru einmitt að benda á að það gæti farið vel á því að þessar ályktanir færu líka til umfjöllunar í fagnefndunum sem hér um ræðir. Ég hef skilning á því og held að það gæti gert það að verkum að alþjóðastarfið okkar og þær hugmyndir sem verða til þar fái víðtækari og meiri umræðu og það er af hinu góða. Ég átta mig samt alveg á því að það hefur örugglega aðeins farið um formann Íslandsdeildar í ljósi þess að ég geri ráð fyrir því að hún vilji gjarnan afgreiða þessar þingsályktunartillögur fyrir ársfund ráðsins sem fram fer í sumar. Við áttum okkur alveg á því flækjustigi. En ég efast ekki um að það verði kannski hægt að gera það með einhverjum hætti, kynna þær í nefndunum og vekja athygli þingmanna á þeim.

En að því sögðu ætla ég að fagna því sérstaklega að hér sé umræða um þessar þingsályktunartillögur því að því miður er það oft svo að umræðu um málefni Vestnorræna ráðsins og reyndar líka oft annars alþjóðastarfs er of lítil og fyrirferðarlítil hér í þingsal og ég held hún mætti svo sannarlega vera meiri. Og af því að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var einmitt að velta því fyrir sér hvort þetta væri fyrirmynd, þá finnst mér það vel athugandi að fleiri Íslandsdeildir eða alþjóðastarf taki sér það til fyrirmyndar að flytja þingsályktunartillögu með áhugaverðum málum sem verið er að vinna að. Það er alveg rétt að í okkar alþjóðastarfi erum við oft að leggja mjög mikla vinnu í stórar og miklar ályktanir sem eru svo samþykktar en fá kannski ekki mikla umfjöllun hér. En okkur í þessum landsdeildum ber auðvitað ákveðin skylda til að sjá til þess að íslensk stjórnvöld séu að vinna í anda þeirra ályktana sem þar eru samþykktar. Þannig að mér finnst þetta fyrirkomulag að mörgu leyti geta verið einhver fyrirmynd en hvet auðvitað okkur öll sem tökum þátt í alþjóðastarfi að vera dugleg að ræða um það líka hér á þessum vettvangi því að oft er þörf en nú er svo sannarlega nauðsyn á að tala um samstarf lýðræðislega þenkjandi friðsælla ríkja.